Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hiti aldrei mælst meiri í Þýskalandi og Belgíu

24.07.2019 - 21:23
epa07737197 A man cools off in the fountain in Navona Square in Rome, Italy, 24 July 2019. High temperatures about 36 degrees Celsius are expected today in the city.  EPA-EFE/RICCARDO ANTIMIANI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Hitamet féllu í Hollandi, Þýskalandi og Belgíu í dag en þar hefur hiti ekki mælst meiri frá því mælingar hófust. Ekkert lát er á hitabylgjunni sem nú gengur yfir Evrópu og búist við að fleiri met falli á morgun.

Hitabylgjan á meginlandi Evrópu er svipuð þeirri sem gekk yfir um síðustu mánaðamót en þá eins og nú berast þessi óvenju miklu hlýindi frá Afríku. Þá féllu mörg hitamet sem voru svo slegin aftur í dag. Í Limburg í Belgíu mældist hitinn 39,9 gráður og hefur ekki mælst hærri frá því mælingar hófust 1833. Metin falla líka í nágrannaríkjunum, Hollandi, Luxemburg og Frakklandi. Boðið var upp á ísbað í Berlín í dag en þar og víðar í Þýskalandi fór hitinn yfir fjörtíu stig. 

Evrópska veðurstofan gaf út viðvaranir vegna hitans í dag og íbúar hvattir til að halda sig í skugga og drekka nóg af vökva. Hitametið í Belgíu er frá 1947 en það var slegið í dag en hitamælirinn er við herstöðina Kleine-Brogel. Þar mældist hitinn 39,9 gráður. Í Geilenkirchen í Þýskalandi mældist hitinn 40,5 gráður og í Gilze-Rijen í Suður-Hollandi mældist hann 38,8 gráður og sló þar með 75 ára gamalt met. Hitinn í París í Frakklandi fór nálægt fjörtíu gráðunum í dag en mesti hiti sem hefur mælst þar er 40,4 gráður. Útlit er fyrir að það met falli á morgun.