Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hitabeltisstormur nær til Bahama-eyja

14.09.2019 - 19:45
Mynd: EPA / EPA
Hitbeltisstormur fer nú yfir hamfarsvæðin á Bahama-eyjum. Um 1.300 er enn saknað eftir fellibylinn Dorian sem skildi eftir sig fordæmalausa eyðileggingu.

Stormurinn sem hefur fengið nafnið Humberto náði til Bahama-eyja í dag og búist er við að hann verði farinn yfir eyjarnar síðar í kvöld.  Vindhraði er yfir 20 metrar á sekúndu með sterkari hviðum og honum fylgir mikil úrkoma.

Ástandið á hamafarasvæðunum er skelfilegt, aðeins tvær vikur eru síðan fellibylurinn Dorian fór yfir eyjarnar og skildi eftir sig fordæmalausa eyðileggingu. Staðfest dauðsföll eru 50 en yfir þúsund manns er enn saknað. Þá þarfnast minnst 15 þúsund neyðaraðstoðar í formi matar, skjóls og læknisaðstoðar. Sameinuðu þjóðirnar segja tjónið vegna Dorian mælast í milljörðum bandaríkjadala. Ljóst er að það er langt þar til lífið getur aftur gengið sinn vanagang hjá fjölmörgum íbúum þeirra svæða sem urðu einna verst úti.