Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Hipp og kúl“ að vera í merktum pelsum

24.01.2017 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásgerður Jóna Flosadóttir, starfandi formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segist skilja gagnrýnina á pelsagjöf PETA að mörgu leyti. „En við verðum að hugsa um það að það er fátækt á Íslandi og þegar fólk er að setja út á það að við höfum þegið þessa pelsa frá PETA, þá var það náttúrlega gert til þess að hjálpa þeim sem búa jafnvel bara í óupphituðum húsakynnum.“

Gagnrýnt hefur verið að allir pelsarnir hafi verið merktir með málningu og með því sé verið að merkja fátæka. „Í raun og veru er það nú bara hipp og kúl í útlöndum að vera í spreyjuðum pelsum, þannig að ég veit ekki alveg hvað fólk er að tala um. En auðvitað skil ég að fólki finnst kannski að við séum að merkja þá sem eru fátækir, en til hvers að vera alltaf hreint að fela fátæktina á Íslandi? Í þessi 20 ár sem ég er búin að starfa í góðgerðarstarfi, þá er stöðugt verið að þagga niður og fela fátæktina. Það er mikil fátækt á Íslandi, ég veit að það eru margir ósammála mér, en ég er innan um fátækt fólk alla daga.“

Ásgerður Jóna segir að fjöldi fólks hafi komið til þeirra í dag. „Einn sem að býr hérna aðeins fyrir utan bæinn í kofaskrípi sem að lekur, hann var svo ánægður að fá fjóra pelsa til að hlýja sér og var afar þakklátur og er alveg gáttaður á þessari umræðu. Nú síðan er hér fólk sem að kemur bara hreinlega og því finnst það bara hipp og kúl að vera í merktum pelsum.“

Málningin náist úr pelsunum

Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, sagði í hádegisfréttum að það væri siðferðislega rangt að merkja fólk fátækt og undraðist að gefa ætti fátækum og heimilislausum á Íslandi pelsa sem merktir hafa verið með bleikum lit.  

Ásgerður segir að málningin náist af pelsunum. „Þannig að það skemmtilega var að við gátum þrifið málninguna og það eru bara skilaboð til hennar Guðrúnar Ögmunds og til kirkjunnar, að kirkjan skuli stökkva svona fram, alveg um leið höggva í okkur, það er ekki fallegt. Vegna þess að hér erum við eingöngu að vinna af manngæsku og mannúð og við gerum það líka með því að taka á móti þessum pelsum. Og geti svo bara hver og einn dæmt okkur fyrir það, en ég veit vel að hver einasti pels á eftir að fara út en það er ekki þar með sagt að fólk eigi endilega eftir að ganga í þeim. Fólk getur notað pelsa á ýmsan hátt.“

Gagnrýnin hafi komið á óvart

Ásgerður segir að gagnrýnin á pelsagjöfina hafi komið henni á óvart. „við erum á smá krossgötum núna, því maður vissi bara ekki hvaðan á sig stóð veðrið í morgun þegar öll þessi læti byrjuðu út af einhverjum 200 pelsum. Jú við ætlum bara að meta þetta í kvöld hvort við sendum pelsana út aftur, en við munum að sjálfsögðu afhenda þeim sem að þurfa virkilega, bara vegna húsakynna sem viðkomandi býr við og aðstæður, en hugsanlega myndum við þá senda restina út. En fólk er afskaplega þakklátt sem hefur komið og fengið og ekki nóg með það að við vorum náttúrlega að láta villiketti hafa þrjá eða fjóra pelsa þannig að litlu kisurnar þeirra geta kúrað í hlýju. Þannig að þetta er bara manngæska og við vinnum hér bara eftir kristnum gildum og við erum ekki að niðurlægja einn eða neinn,“ segir Ásgerður, sem blæs á gagnrýnina. 

„Já, ég blæs á hana og mér finnst hún koma úr hörðustu átt og ég vil nú bara segja eitt: að hún Guðrún Ögmundsdóttir, ég ber mikla virðingu fyrir þeirri konu, en hún er búin að hafa alla möguleika síðastliðinn tíu eða tuttugu ár til að rétta kjör þeirra sem að leita hér vikulega eftir mataraðstoð, en það er lítið sem hefur komið frá henni.“

Ásgerður segir að 50 manns vinni hjá Fjölskylduhjálpinni, þar af einn á launum. „En við þykjum ekki nógu fínar af því að við erum ekki með geðlækna, sálfræðinga, félagsráðgjafa, við erum aldrei á fundum en ef ég ætti að fara eftir því eins og fólkið í Reykjavík í kerfinu, þá gæti ég aldrei verið hérna við. Ég þarf yfirleitt að hafna þeim fundum sem mér er boðið á vegna þess að hér er ég bara föst. En ég vildi óska þess að Guðrún Ögmundsdóttir, að hún hefði gert aðeins meira fyrir öryrkja og eldri borgara því staðan er alveg kýrskýr í dag. Fólk með 200 þúsund á mánuði, það lifir ekki, Guðrún Ögmundsdóttir, á þessu en ég virði alveg gagnrýni hennar.“

 

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV
Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV