Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hinir ensku víkingar

Mynd:  / 

Hinir ensku víkingar

10.02.2019 - 14:29

Höfundar

Líklega vita allir, sem einhvern tíma hafa opnað bók eða kveikt á sjónvarpinu, að eitt sinn herjuðu norrænir menn á England. Víkingarnir eru jú eitt frægasta fyrirbæri sögunnar, tilvalinn efniviður í bækur, teiknimyndasögur, sjónvarpsþætti og tölvuleiki. Það þekkja allir skeggjuðu karlana með litríku skildina sem sigldu öskrandi og gólandi meðfram breskum ströndum í leit að skjótfengnum gróða.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:

Ein af ástæðum þess að þeir kveikja svona rækilega á athygli okkar og ímyndunarafli hlýtur að vera sú hversu fjarstæðukennt þetta er allt saman. Á 19. og 20. öld tilheyrðu Norðurlönd algjöru jaðarsvæði hins pólitíska valds á meðan Bretland var lengst af miðpunktur heimsveldis. Í því samhengi þykir það bara skrítið og skemmtilegt að norskir sjóræningjar hafi einhvern tíma getað valdið ógn og skelfingu á skoskum smáeyjum.

En þessi pistill fjallar ekki um víkingana, heldur starfsbræður þeirra nokkrum öldum síðar, sem birtast afar sjaldan í skáldsögum eða sjónvarpsþáttum. Á 16. öld höfðu valdahlutföllin snúist algerlega við og þá voru það Englendingar sem réðu lögum og lofum á Atlantshafinu, sérstaklega á fiskimiðunum við Ísland. En þeir létu sér ekki nægja að veiða fisk, því í kringum aldamótin 1600 voru Englendingar mjög ötulir sjóræningjar. Og það voru ekki sendnar Kyrrahafseyjar sem voru skotmörk þeirra, heldur Ísland og Færeyjar.

Konunglegt leyfi til sjórána

 

Hinir ensku sjóræningjar og árásir þeirra falla oftast nær í skuggann af mun frægara sjóráni í Íslandsögunni. Það er að sjálfsögðu Tyrkjaránið árið1627, þegar eitt skip frá Marokkó og þrjú frá Algeirsborg réðust í sitt hvoru lagi á Grindavík, Austfirði og Vestmannaeyjar. Koma þessara sjóræningja til Íslands kann að virðast undarleg, en hvorki Tyrkjaránið, né aðrar minna þekktar árásir, verða slitnar úr samhengi við þau sífelldu sjórán sem evrópsk ríki stunduðu um þetta leyti. 17. öldin var tími nær stöðugra styrjalda í Evrópu og þar sem sjóherir hinna stríðandi landa voru ekki öflugir, þá gripu ríkin til þess ráðs að gefa út sjóræningjabréf. Skipstjórar gátu þá gerst verktakar í stríðinu og herjað á skip og hafnir óvinarins með konunglegu leyfisbréfi, svo lengi sem krúnan fékk sinn hluta af ágóðanum.

Þess vegna eru til tvö mismunandi orð yfir sjóræningja í mörgum evrópskum málum, eitt fyrir sjóræningjaskip á eigin vegum og annað fyrir þau sem eru í þjónustu krúnunnar. Sjóræningjar úr fyrri hópnum þóttu skúrkar og varmenni, en leyfisbréfssjóræningjar höfðu á sér vissan blæ ævintýra og dirfsku. En það fór auðvitað eftir því hver var spurður álits, fórnarlömb ræningjanna eða samlandar þeirra. Ferill hvers sjóara gat líka spannað mjög vítt svið, allt frá heiðarlegum sjómanni til sjóræningja, með eða án leyfisbréfs. Í hinu skelfilega Tyrkjaráni voru flestir sjóræningjarnir enskir, þýskir og hollenskir að uppruna, en á þessum árum hafði fjöldi evrópskra sjóræningja leitað sér að nýju heimili í Norður-Afríku, þegar Evrópuríki hættu að veita leyfi til sjórána á friðartímum.

Mannrán og pyntingar

 

En sending á borð við Tyrkjaránið er sem betur fer einsdæmi í íslenskri sögu. Hinn almenni enski sjóræningi sem sigldi að ströndum Íslands á 17. öld var á eigin vegum og herjaði helst á verslunarskip og fiskiskútur, og slík skip voru ekki íslensk. Stundum létu þeir freistast til að ganga á land á Íslandi eða í Færeyjum, en ofbeldið sem þeir beittu var langt í frá jafn skelfilegt og það sem sjóræningjarnir frá Algeirsborg urðu frægir fyrir. Það kom fyrir að þeir rændu skipverjum á stórum seglskipum, en þeir höfðu takmörkuð not fyrir íslenska bændur. Þó tímabil ensku sjóræningjanna hafi verið litríkt þá var það ansi stutt og er ágætlega rammað inn af tveimur árásum. Sú fyrri var framin á Patreksfirði árið 1579 en sú seinni í Vestmannaeyjum árið 1614.

Í ráninu í Vestmannaeyjum var það helsti ásetningur sjóræningjanna að ræna erlend skip sem lágu í höfninni. En jafnframt lögðu þeir undir sig Heimaey í heilar tvær vikur, rændu og rupluðu í kirkjum, verslunum og heimilum og eyðilögðu það sem þeir gátu ekki haft með sér. Þeir ógnuðu fólki með vopnum og nauðguðu konum, en ef marka má heimildir sýndu þeir þó ekki af sér jafn mikla grimmd og forherðingu og landar þeirra höfðu gert á Patreksfirði, 35 árum fyrr. Þá virðist helsta markmið sjóræningjanna hafa verið mannrán, en þeir rændu auðmanninum Eggerti Hannessyni gegn lausnargjaldi. Eggert var í haldi sjóræningjanna vikum saman, pyntaður og barinn, þar til ræningjumum barst sönnun fyrir greiðslu. Á meðan þeir biðu skemmtu þeir sér við að ræna kirkjur og eyðileggja, nauðga konum og pynta menn með eldi.

Herramannssjóræningi á Íslandi

 

Þessir ensku sjóræningjar á 16. og 17. öld voru í einu orði sagt óþjóðalýður, og það þótt einn sjóræningjanna í Vestmannaeyjum héti því sérkennilega nafni James Gentleman. En löngu seinna, í upphafi 19. aldar, fengu Íslendingar heimsókn frá ósviknum breskum herramannssjóræningja. Sá hét Thomas Gilpin og var með konunglegt leyfisbréf til sjórána í Napóleonsstríðunum. Hann var hingað kominn ásamt 25 manna áhöfn í leit að einhverjum verðmætum í eigu danska kóngsins sem hann gæti sölsað undir sig með góðri samvisku, enda voru Danmörk og England sitt hvoru megin í átökunum. Gilpinsránið hlýtur að teljast ein sérkennilegasta árás sjóræningja fyrr og síðar, því svo virðist sem hvorki hinir ensku sjóræningjar né hin íslensku fórnarlömb hafi getað ákveðið sig hvort þetta væri ránsleiðangur eða kurteisleg heimsókn.

Koma skipsins í júlí 1808 olli bæði forvitni og áhyggjum, en einhverjir tóku af skarið og fóru út í skipið til að athuga hverjir væru þar á ferð. Þeirra á meðal var Jón Jónsson, aðjúnkt við Bessastaðaskóla. Hann þáði matarboð hjá kapteininum og hélt uppi samræðum á frönsku, en þegar hann ætlaði aftur í land var honum tilkynnt að hann hefði því miður verið tekinn í gíslingu. Upphófst síðan heldur misheppnuð leit hinna kurteisu sjóræningja að opinberu fé sem þeir gætu lagt hald sitt á, og enn þá misheppnaðri vörn íslenskra embættismanna. Stundum létu skipverjar vígalega, og á Álftanesi réðust tveir þeirra að tveimur ungum stúlkum, með illt eitt í huga. Þeir voru samt ekki kaldrifjaðri en svo að þeir lögðu á flótta þegar snöfurmannleg kona um sjötugt, Jórunn að nafni, kom stúlkunum til bjargar með hníf á lofti, og ungbarn á hinum handleggnum.

Einnig lögðu tveir sjóliðar leið sína til Viðeyjar í skjóli nætur, þar sem bjó hinn aldurhnigni Ólafur Stephensen, fyrrum stiftamtmaður, og rændu hann bæði gleraugum og vasaúri. Ólafur varð skiljanlega felmtri sleginn, en þó ekki meir en svo að hann klagaði ræningjana til skipstjórans, sem hafði heimsótt hann fyrr um daginn. Eggert Hannesson, sem tvö hundruð og fimmtíu árum fyrr hafði verið rekinn nakinn af hemili sínu um miðja nótt og mátt svo þola illa meðferð og barsmíðar vikum saman, hefði líklega bara hlegið að þessum raunum hans. Vestmanneyingar fengu líka heimsókn frá þessum sjóræningjum eins og öðrum og brugðu á það skynsamlega ráð að fela sig. En það eina sem sjóræningjarnir gerðu af sér í Heimaey var að drekka dálítið brennivín og gæða sér á skonroki sem þeir fundu liggjandi á borðum.

Að lokum sigldi Gilpin af landi brott eftir eins mánaðar dvöl, með mörg þúsund ríkisdali í farteskinu. Þetta voru peningar sem höfðu meðal annars verið ætlaðir til þess að greiða prestsekkjum lífeyri. En hann fór þó ekki fyrr en hann hafði haldið veglegan dansleik fyrir heldra fólk í Reykjavík og nágrenni, þar sem dansinn dunaði til klukkan þrjú um morguninn og púrtvínið flæddi. Peningunum sem hann stal var svo á endanum skilað nokkrum árum síðar. Englendingar féllust nefnilega á að það hefði verið mjög ódrengilegt að hirða þessa peninga frá jafn vonlausu landi og Íslandi, þar sem engir voru til varna nema ein gömul kona með ungbarn og stóran hníf.