Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hinir efnameiri komist hjá takmörkunum

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Vegagerðin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru ekki farin að huga að því hvernig nota á heimildir til að takmarka bílaumferð þegar loftmengun er mikil. Viðskiptaráð Íslands óttast að breytingarnar leiði til þess að hinir efnameiri bæti við sig bíl til að komast hjá takmörkunum.

Sveitarfélög og Vegagerðin fá, frá og með áramótum, heimild til að takmarka eða jafnvel banna bílaumferð tímabundið þegar loftmengun er mikil.

Útfærslan liggur ekki fyrir en samkvæmt nýjum umferðarlögum geta sveitarfélög, eða Vegagerðin á þjóðvegum, breytt umferðarhraða eða takmarkað umferð stærri farartækja. Önnur útfærsla er sú að heimila eingöngu akstur ökutækja sem eru með bílnúmer sem enda á oddatölu eða sléttri tölu á tilteknum svæðum á tilteknum tíma.

Útfærslan kallar á víðtækt samstarf

Reykjavíkurborg er þegar farin að huga að beitingu þessara heimilda líkt og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs borgarinnar sagði í fréttum sjónvarps í gær. Fulltrúar heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu koma saman til fundar í dag til að ræða fyrstu skref, en útfærslan kallar á víðtækt samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, lögreglu, Vegagerðarinnar og fleiri.

Hvorki Vegagerðin né Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa raunar tekið afstöðu til málsins en þau svör fengust hjá þeim báðum að málið yrði skoðað á næstunni. Raunar vakti þessi breyting litla athygli þegar ný umferðarlög voru samþykkt á þingi og einungis er drepið á málinu í tveimur umsögnum. Samtök sveitarfélaga sögðust líta almennt jákvætt á þessar breytingar en Viðskiptaráð Íslands gerir athugasemdir við útfærsluna. 

Hinir efnameiri bæti við sig bíl

Í umsögn Viðskiptaráðs sagði að þessar breytingar gætu haft þau áhrif að hinir efnameiri komist hjá banninu með því einfaldlega að eiga tvo bíla frekar en einn, annars vegar með bílnúmer sem endar á oddatölu og hins vegar með bílnúmeri sem endar á sléttri tölu. Lagði Viðskiptaráð frekar til upptöku rafrænna tollahliða sem hvetji fólk til að fækka ferðum, stytta þær eða velja aðra ferðamáta þegar gjaldið er hærra.