Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hingað gætu komið loftslagsflóttamenn

27.10.2018 - 17:26
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segir að enn sé von um að hægt verði að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Hann segir að bandalag borga, upplýstra stórfyrirtækja og vísindanna auk meðvitaðs almennings gefi vonir um að bregðast megi við af skynsemi. 

„Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað [afleiðingarnar] eru hrikalegar því ofsaveðrin sem eru í fréttum hérna hvað eftir annað munu verða enn erfiðari viðureignar. Hitastigið jafnvel í Suður-Evrópu mun verða þannig að það verður nánast óbyggilegt. Jafnvel London á síðasta sumri var allt að því óbyggileg því hún var ekki byggð fyrir það hitastig sem var,“ sagði Ólafur Ragnar í þættinum Morgunkaffið á Rás 2. Hann sagði að þetta geti haft áhrif á Íslandi. „Þannig að við getum farið að horfast í augu við það að hingað komi fólk eða leiti fólk sem yrði einskonar loftslagsflóttamenn. Ekki fátækt fólk heldur fólk vill búa í landi sem hefur þolanleg dagleg veðurskilyrði.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV