Hin „landlæga áþján stjórnmálanna“ í Rómönsku Ameríku

18.11.2019 - 07:30
epaselect epa08000859 A person waves a flag during demonstrations at Plaza Baquedano, in Santiago, Chile, 15 November 2019. At least 20 people have died since the protest began over a hike in subway fares.  EPA-EFE/ORLANDO BARRIA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Í fjórtánda þætti Heimskviðna er rætt um vaxandi óánægju almennings út í ríkjandi stjórnvöld víða í Rómönsku-Ameríku. Fjölmenn mótmæli eru orðin daglegt brauð í morgun löndum. Á meðan einhverjir ráðamenn hafa hrökklast frá völdum, halda aðrir enn fastar í þau.

Er vor í vændum í suðurfrá?

Það er vor víða í Suður-Ameríku, enda þessi heimsálfa hinum megin á hnettinum. Og vori fylgja alltaf umskipti, sól hækkar á lofti með tilheyrandi breytingum á geðslagi, og sumar er handan við hornið. Allt verður grænna, og eins betra - og er vorið því stundum myndlíking um það þegar eitthvað breytist til batnaðar; þegar fjötrar hins liðna eru leystir og fólk horfir bjartsýnt fram á veginn. 

Í þeim anda voru þau fjölmörgu mótmæli sem skóku Arabaheiminn árin 2010 og 2011 kölluð arabíska vorið. Fólk stappaði niður fæti og bauð einræðisstjórnum byrginn, hingað og ekki lengra - sögðu þau, langeyg eftir sumri og réttlætisins sól. Sums staðar skilaði arabíska vorið árangri og félagslegar úrbætur litu dagsins ljós. Annars staðar ekki, eins og borgarastyrjöldin í Sýrlandi ber sorglegt vitni um.

Andrúmsloftið víða í Suður-Ameríku um þessar mundir minnir um margt á arabíska vorið, að minnsta kosti við fyrstu sýn. Víða um álfuna, og í raun um allt svæðið suður af landamærum Bandaríkjanna, sem stunudum er kallað Rómanska Ameríka - má greina vaxandi óánægju almennings í garð stjórnvalda. Mótmæli og átök almennings og yfirvalda virðast vera orðin daglegt brauð. 

Í Perú leysti forseti landsins nýverið upp þingið; forseti Hondúras sætir ásökunum um að hafa þegið mútur frá eiturlyfjabarónum; kollegi þeirra í Ekvador hætti að niðurgreiða eldsneyti í landinu, sem hleypti öllu í bál og brand; og í Paragvæ gerði forsetinn umdeildan orkuskiptasamning við brasilísk stjórnvöld sem fór illa í landsmenn. Svona mætti lengi telja.

En það eru nágrannaríkin Síle og Bólivía, sem hafa verið einna mest í fréttum að undanförnu. Forsetar þessara landa eru þó í ólíkri stöðu, Sebastián Piñera í Síle heldur sem fastast í völdin í Síle á meðan Evo Morales í Bolivíu hefur hrökklast frá völdum handan landamæranna. Og þessir tveir menn eiga ekki margt sameiginlegt, þeir eru hvor sínu megin á ási stjórnmálanna. En það sem þeir eiga sameiginlegt, og deila því með fleiri leiðtogum Rómönsku Ameríku - er andúð þegnanna á spilltum stjórnarháttum. 

En er raunverulegt vor í Rómönsku Ameríku, eða höfum við sé þetta allt saman áður? Það haustar jú víst alltaf á endanum. 

epa07676996 Chilean President Sebastian Pinera during a joined press conference with the Palestinian President Mahmoud Abbas (unseen) in the West Bank town of Ramallah, 27 June 2019,  Sebastian Pinera arrived on 25 June for a three-day official visit to Israel and the Palestinian  EPA-EFE/ATEF SAFADI
Sebastián Piñera, forseti Chile. Mynd: EPA-EFE - EPA
Sebastian Piñera, forseti Síle, stendur í ströngu um þessar mundir.

Síle: Gjá milli Piñera og fólksins

Við skulum byrja í Síle, landinu sem nær yfir nær helming vesturstrandar Suður-Ameríku, hvar Andesfjöll liggja í austri og kyrrahafið lúrir í vestri. Undanfarnar fjórar vikur eða svo hefur allt logað í mótmælum í landinu. Mótmælin snúast ekki um eitthvað eitt, heldur eru þau ávöxtur langvarandi gremju almennings vegna aukinar misskiptingar. Menntakerfið, heilbrigðismál og lífeyrisgreiðslur eru það sem ber hæst.

„Það eiginlega fyllti svo mælinn fyrir fjórum vikum síðan þegar ákveðið var að hækka var fargjaldið í neðanjarðarlestum. Þá sprakk allt og sauð uppúr,“ segir 
Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands og sérfræðingur í bókmenntum og sögu Rómönsku Ameríku.

Ég sló á þráðinn til Hólmfríðar þar sem hún er einmitt í Síle um þessar mundir og þekkir vel til í landinu. Það var nefnilega eins og Hólmfríður segir, hækkun á fargjaldi í neðanjarðarlestir, sem varð á endanum til þess að þúsundir mótmælenda þustu út á götur. En það var aðeins kornið sem fyllti mælinn. Nýfrjálshyggju- og einakvæðingastefna hefur ríkt í landinu frá því einræðisherrann Augosto Pinochet lét af völdum 1990 og bilið milli ríkra og fátækra aukist.

Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands
Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Háskóla Íslands.

„Hér er algjörlega tvöfalt kerfi í öllu. Þeir sem eiga pening fara á einkasjúkrahús. Þeir sem eiga pening fara í einkaháskóla. En svo til hliðar er opinbert kerfi, og ég hef í gær og í dag verið að hlusta á endalausa vitnisburði í fjölmiðlum um hörmungarsögur opinbera kerfisins, bæði úr skólamálum og í heilbrigðisgeiranum. Dauðsföll hafa orðið vegna skorts á lyfjum, langar biðraðir þegar komið er á spítala og leitað eftir þjónustu. Allt þetta hefur magnast,“ segir Hólmfríður.

Og svo eru það málefni aldraðra og lífeyrisgreiðslur sem þykja af skornum skammti. Pinera reyndi á þriðjudag að mæta þeirri gremju og gefa efirlaunþegum 20% afslaátt í almenningssamgöngur, en það var aðeins olía á eldinn, enda var það lækkun sem breytti engu þegar lífeyrisgreiðslurnar eru litlar sem engar. Hólmfríður segir gremju Sílebúa vegna þessarar misskiptingar því uppsafnaða.

„Það er auðvitað valdastétt í landinu, yfirstétt sem skortir ekkert. En svo er hér líka einhverskonar gömul seigkend leðja sem á sér áratuga rót.“

Rót þessarar „seigkenndu leðju“ sem Hólmfríður talar um, má rekja allt aftur til tíma herforingjastjórnar Pinochets frá 1973 til 1990, þegar fjöldi pólitískra andstæðinga einræðisherrans voru teknir af lífi og enn fleiri flúðu land. Unga fólkið í dag eru afkomendur þess tíma og ber lítið traust til stjórnmálamanna. Síðustu ár hefur stéttaskipting aðeins aukist í landinu. Pinera kemur úr hægriblokkinni Vamos Chile og á sína fulltrúa og fylgismenn í landinu. Sístækkandi fer þó vinstriblokkinn, Nueva Majoria eða Nýi meirihlutinn. Þessar tvær blokkir hafa skipst á völdum undanfarin ár. 

„Ef þú fæðist inn í yfirstétt í þá ferðu í einkaleikskóla, einkabarnaskóla, einkaháskóla og ferð í framhaldinu að vinna hjá einkafyrirtæki sem að annaðhvort frændi þinn eða vinur föður þíns eða móður á eða rekur. Þessi gremja tengist fjármálaaðstæðum en hún er líka gömul og fastmótuð í þjóðarsálina,“ segir Hólmfríður. Og til að hella olíu á eldinn, talaði Piñera forseti um stríð þegar mótmælin hófust. Óhætt er að segja að ummæli Pinera hafi farið þveröfugt ofan í mótmælendur, sem álitu þau lítilsvirðandi.

Þá vilja mótmælendur nýja stjórnarskrá, og segist Piñera tilbúinn að skoða þá kröfu. Hann vill þó að sú vinna fari fram innan þingsins, en almenningur vill að óháðir aðilar úr samfélaginu sjái um það. 

Og mótmælendur vilja sömuleiðis, ofar öllu - Piñera burt. Afsagnar hans er krafist, en hann situr sem fastast og tryggði bakland sitt enn frekar með því að stokka upp í ríkisstjórn landsins. Þá lýsti hann yfir neyðarástandi í landinu, en að minnsta kosti 20 hafa látist í átökum milli mótmælenda og lögreglu frá því mótmælin hófust fyrir tæpum mánuði. Ljóst er að þessari sögu er hvergi nærri lokið.

epa07997814 Protesters take part in a demonstration during a commemoration of the first anniversary of the death of Mapuche community member Camilo Catrillanca, in Santiago, Chile, 14 November 2019. Catrillanca was shot in the head by national police during protests in the southern region of La Araucania.  EPA-EFE/ORLANDO BARRIA
Mikil mótmæli hafa verið í Chile undanfarnar vikur. Mynd: EPA-EFE - EFE
Mótmælendur á götum Santiago, höfuðborgar Síle, þann 14. nóvember síðastliðinn.

Bólivía: Evo Morales hrökklast frá völdum

Víkur þá sögunni yfir til nágrannaríkis Síle, Bólivíu. Þar hafa síðustu vikur sömuleiðis einkennst af mótmælum og átökum. Ástæðan er nýafstaðnar forsetakosningar og sigur Evo Morales, sem setið hefur á forsetastóli frá 2006. Sannað þótti að Morales og hans fólk hefðu hagrætt úrslitum kosninganna, enda benti fátt til þess daginn fyrir kosningar að Morales færi með sigur úr býtum

Ólíkt kollega sínum í Síle, kemur Morales af vinstri væng stjórnmálanna - en rétt eins og annars staðar í Rómönsku Ameríku eru eldgamlar valdablokkir í Bolivíu, þar sem landeigendur og iðnjöfrar eru öðrum megin, og almenningur, verkamenn og bændur hinum megin. Hlutfall frumbyggja í Bolivíu er með því hæsta sem gerist í Rómönsku Ameríku, og þegar Evo Morales var kjörinn forseti 2005 var hann sá fyrsti úr þeirra röðum til að gegna forsetaembætti í heimshlutanum. Og við hann batt almenningur miklar vonir. 

„Og hans fyrstu tvö tímabil í embætti markast af allskonar umbótum sem vert er að halda til haga, hvað varðar réttindi frumbyggja, tungumál þeirra og menntakerfi á mörgum tungumálum. En á sama tíma er auðvitað valdastétt landeigenda hefur alltaf unnið hörðum höndum á móti, og átt mjög sterka og flotta málsvara líka,“ segir Hólmfríður.

Mynd með færslu
Evo Morales, forseti Bólivíu. Mynd: EPA - EFE / BOLIVIAN NEWS AGENCY
Evo Morales, á meðan allt lék í lyndi í Bólivíu

Og þótt Morales hafi gert margt gott og notið vinsælda, kostuðu vinsældir hans sitt. Þær umbætur sem hann gerði reyndust miklu kostnaðarsamari en mögulegt var innan ramma fjárlaga ríkisins. Og þegar fer að halla undan fæti, bregst Morales við eins og svo margir aðrir stjórnmálamenn í Rómönsku Ameríku virðast gera. 

„Síðan gerir hann það sem að þessir valdamenn álfunnar endurtaka aftur og aftur, og það er að geta ekki látið af völdum. Hann breytir stjórnarskránni þannig að hann geti gefið kost á sér einu sinni enn, er aftur kosinn,“ segir Hólmfríður. 

Sem fyrr segir vaknaði þá grunur um að maðkur væri í mysunni, þar sem spár gáfu til kynna að hann myndi tapa. En annað kemur upp úr kjörkössunum og Morales lýsir yfir sigri. Mótmæli og óeirðir brutust út í nokkrum borgum Bólivíu í kjölfarið og þar hefur ófremdarástand ríkt undanfarnar vikur. Tíunda nóvember síðastliðinn var Morales hins vegar kominn á endastöð, og sagði af sér - þremur vikum eftir að úrslit kosninganna voru kunngjörð. Hann hafði misst stuðning hersins og lögreglunnar.

Hann segist hafa sagt sig frá embæti af skynsemi og velvilja gagnvart eigin þjóð, en andstæðingar hans benda á að hann hafi ekki átt annarra kosta völ. Varaforseti þingins, Jeanine Áñez, hefur lýst sig sem forseta og boðað til nýrra þingkosninga - ekki ósvipað og Juan Guaido gerði fyrr á þessu ári í Venesúela þegar grunur lék á að Nicolas Madouro, forseti landsins, hefði hagrætt úrslitum forsetakosninganna. Umfjöllun um forsetakrísuna í Venesúela má finna í fjórða þætti Heimskviðna.

epa07993797 The Interim President of Bolivia Jeanine Anez speaks during a press conference at the Palacio Quemado, in La Paz, Bolivia, 13 November 2019. Anez, said that in the country 'there is no coup d'etat', contrary to statement before the international community by Evo Morales in Mexico, where he seeks asylum, after his resignation from the Presidency.  EPA-EFE/RODRIGO SURA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jeanine Áñez lýsir því yfir að hún verði starfandi forseti í Bolivíu, og boðar til þingkosninga.

Sameiginlegar rætur óánægju og ófriðar

Er eitthvað sameiginlegt með því sem er að gerast í Síle um þessar mundir, og Bólivíu? Löndum þar sem annars vegar er sótt að hægristjórn Sebastians Pinera, og hins vegar að vinstristjórn Evos Morales? Og hvað með hin löndin í álfunni, þar sem allt logar sömuleiðis í illdeilum og mótmælum; Perú, Hondúras, Venesúela, Ekvador og svo framvegis? Hólmfríður segir það eitt einkenni á stjórnmálum í Rómönsku Ameríku - að við lýði sé, og eigi að vera einn, óskeikull stjórnandi. Stór og sterkur. Og það ástand, geti verið ávanabindandi. 

„Þessi ofuráhersla á leiðtogann, á að það sé einn leiðtogi og hann beri svo mikla og einangraða ábyrgð, og þannig komast ekki upp við hliðina á þeim framtíðarkandídatar til þess að vera þá á hliðarlínunni þegar og ef breytingar verða. Sem að kannski líka á að Morales hefur þrjóskast við, og ekki getað skilið sinn vitjunartíma.“ 

Annað einkenni, valdagræðginni nátengt, er spillingin bölvaða - sem virðist alls staðar ná að skjóta rótum.

„Í Chile, í Bolivíu, í Argentínu, í Brasilíu, í Mexíkó, þessum stóru sterku áhrifaríkjum álfunnar, er þetta landlæg áþján stjórnmálanna, spillingin.“

Þessi spilling hefur gegnsýrt samfélögin og pólitískt landslag í Rómönsku Ameríku. Hún virðist aldrei draga sig í hlé, hún virðist aldrei sofa. Því um leið og fólk fyllist bjartsýni um að nú hafi stjórnmálamenn lært af reynslunni, lætur hún til skarar skríða. 

„Endalaust vakna vonir um að þessi eða hinn muni brjóta þessa keðju eða þessa hlekki, en svo bara er eitthvað. F'olk fellur í gryfjur, því miður.“

Hendur verkamannsins horast

Það gerði Morales í Bolivíu, og svo virðist sem Pinera sé að feta svipaðar slóðir um þessar mundir. Hann valdeflist við mótmælin, umkringir sig lögreglu og her. En almenningur í Rómönsku Ameríku virðist á sama tíma vera búinn að fá nóg af spilltum og valdasjúkum stjórnmálamönnum. Þótt það sé ekki í fyrsta sinn. 

„Já, og það er alltaf málið,“ segir Hólmfríður. „Það var málið í mexíkósku byltingunni í upphafi 20. aldar, í Níkaragúa og Somoza fjölskyldunni, á Kúbu, í Kólumbíu, og Venesúela nýlega. Herforingjastjórninar á sjöunda og áttunda áratugnum komust til valda því að var óstjórn og óreiða. Það vantaði það sem er kallaði hér „mano dura“, hina sterku hönd til að koma skikki á. En svo gerist það þegar þessi sterka hönd í gæsalöppum er komin til valda, verða hendurnar sem þar eru í kring, þær stækka og fitna, á meðan að allar hinar, þessar hins vinnandi verkamanns, eins og VIktor Jara söngvaskáldið frá Chile fjallaði gjarnan um, þær verða horaðri og horaðri.“

Síleska söngvaskáldið Victor Jara var pyntaður og drepinn af herforingjastjórn Pinochets í Síle.

Vandinn bæði hægri og vinstra megin í pólitíkinni

Bæði vinstri og hægri menn falla í þessar gryfjur,“ segir Hólmfríður. Vandinn er því beggja vegna pólitíska ássins eins og við höfum séð. Gott dæmi um það er einmitt Síle. Michelle Bachelet var forseti Síle, fyrst kvenna, frá 2006 til 2010 fyrir Sósíalistaflokkinn og naut mikilla vinsælda. Hún varð aftur forseti 2014 til 2018, en þá fór að halla undan fæti. Fyrirtæki sonar hennar og tengdadóttur höfðu þegið milljónir dollara fyrirgreiðslu frá ríkisbanka Chile, eitthvað sem Bachelet segist hafa verið grunlaus um. Það dró úr fylgi hennar og stuðningur við hana mældist tæplega 40% þegar hún lét af embætti í mars 2018, samanborið við 84% þegar hún lét af embætti í fyrra skiptið 2010. 

Svona virðist þetta ganga, bæði hægra og vinstra megin. Og mótmælin víða um Rómönsku Ameríku virðast því endurspegla að átök milli hægri og vinstri séu ekki lengur í forgrunni, heldur frekar uppreisn gegn spilltum stjórnmálamönnum, hvorum megin sem þeir standa. Hólmfríður segir undirliggjandi samfélagsfyrirkomulag skipta máli í þessu samhengi.

„Það byggir á módeli sem á sér rætur í því þegar löndin eru að skilgreina sig sem sjálfstæðar þjóðir á 19 öld, og skiptast í tvo flokka, „liberales“ og „conservadores,“ íhaldssamir og fjrálslyndir. Þessar tvær blokkir hafa haldið áfram í gegnum tímann,“ segir Hólmfríður.

„Það sem núna er að gerast að það eru komnar svo miklu fleiri hreyfingar, ekki alveg skýrar valdablokkir lengur. Því eru öll þessi kosningabandalög, og undir hatti þeirra eru margar ólíkar hreyfingar. Þannig það er bæði verið að reyna að finna sáttamiðlanir og samnefnaara um hvernig sé best að geras hlutina. En á sama tíma er þessi hefð fyrir því, sem hér er kallað „caudillo.“ Þessi sterki leiðtogi, sem ber þungann af því sem er að gerast í samfélaginu.“

Í dag er unga fólkið ekki jafn ginnkeypt þessari leiðtogahugmynd og kann það að skýra þessa miklu óánægju með stjórnmálamenn sem sífellt bregðast trausti almennings.

epaselect epa05038233 The head of the opposition Cambiemos alliance Mauricio Macri (C) celebrates his victory next to his wife, Juliana Awada (R), and his daughter Antonia (2-R) in Buenos Aires, Argentina, 22 November 2015. Centre-right opposition
 Mynd: EPA - EFE
Mauricio Macri fagnar sigri í forsetakosningunum í Argentínu árið 2015.

Stjórnmálin í Rómönsku Ameríku eins og pendúll

Við getum ekki fjallað um stjórnmál Rómönsku Ameríku án þess að ræða tvö stærstu efnahagsveldin, nágrannaríkin Argentínu og Brasilíu. Það er einmitt þar sem þessar öfgar, þessar sviptingar frá hægri til vinstri, sýna sig nú hvað skýrast. 

„Stjórmálin í Rómönsku Ameríku eru gjarnarn eins og pendúll sem fer fram og til baka,“ segir Hólmfríður. Í Argentínu og Brasilíu eru ekki eins kröftug mótmæli eins og víða annars staðar um þessar mundir, en nýkjörnir forsetar beggja landa sýna svo ekki verður um villst að þessi pendúll lifir góðu lífi. Jair Bolsonaro, sem oftast er staðsettur lengst til hægri á ási stjórnmálanna tók við embætti forseta Brasilíu á síðasta ári. Bolsonaro er úr allt annarri átt en fyrirrennarari hans Luiz Inacio Lula da Silva og Dilma Rouseff, sem bæði komu úr flokkum verkamanna og sósíalista. Þau voru bæði dæmd fyrir spillingu í starfi og hröktust úr embætti. 

„Og í Argentínu gerðist það sama,“ segir Hólmfríður, en í þveröfuga átt. Núverandi forseti, miðju-hægrimaðurinn Mauricio Macri tók við embætti af Christinu Kirchner árið 2015. Kirchner þótti standa sig vel á sínu fyrsta kjörtímabili og bætti meðal annars stöðu hinsegin fólks í landinu til muna, en fjölmörg spillingarmál komu upp á valdatíð hennar og var hún meðal annars ákærð fyrir landráð. Við tók Macri, en hann var ekki barnanna bestur sjálfur og kom sér meðal annars á síður Panamaskjalanna frægu.

Til að gera þessa hringavitleysu enn skrýtnari, þá bar Alberto Fernandez sigur úr býtum í forsetakosningunum í landinu í síðasta mánuði. Fernandez kemur úr flokki perónista, Justicialista. Og hver verður varaforseti? Jú, þið giskuðuð rétt, Chirstina Kirchner.

epa07996876 Argentinian elect President Alberto Fernandez (R) and the candidate for president of Uruguay for the Frente Amplio, Daniel Martinez (Out of frame), speak to the press in a restaurant in Montevideo, Uruguay, 14 November 2019. Alberto Fernandez already visited Uruguay when he was still a presidential candidate and met with former President Jose Mujica (2010-2015), with whom he met again recently in Buenos Aires.  EPA-EFE/Raul Martinez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Alberto Fernandez, nýkjörinn forseti Argentínu. Fernandez tekur við embætti af Maurico Macri þann 10, desember næstkomandi.

Vorið í Rómönsku Ameríku er komið og farið

Ljóst er að íbúar Rómönsku Ameríku eru orðnir langþreyttir á spilltum og valdasjúkum stjórnmálamönnum, næstum hvert sem litið er. Stjórnmálamenn, hvort sem þeir koma frá hægri eða vinstri, virðast með ölllu óhæfir um að standast þær freistingar sem fólk í valdastöðum stendur frammi fyrir. Og hvað segja þessi mótmæli okkur þá? Er vor í vændum i Rómönsku Ameríku, eins og svo víða í Arabaheiminum árin 2010 og 2011? Hólmfríður telur að þrátt fyrir mótmælin, sé hið eiginlega vor liðið. Það hafi komið og farið, án þess að sumarið hafi látið sjá sig. 

„Það var ákveðið vor hér, held ég. Það lá í loftinu, þegar Dilma Rousisef tók við í Brasilíu, Christina Kirchner á sínu fyrra tímabili, Michelle Bachelet í Síle. Þegar þessar konur voru á sínum fyrstu skrefum. Það voru væntingar, konur báru væntingar um að málin yrðu öðruvísi. Svo tekst ekki að vinna úr því til framtíðar.“  

Einmitt, það tekst ekki. Dilma Roussief var kærð fyrir margháttuð embættisbrot; Bachelet eins og áður sagði flæktist inn í óprúttna starfsemi sonar síns og tengdadóttur, og fjölmörg spillingamál einkenndu stjórnartíð Christinu Kirchner, sem kemst aftur á valdastól í Argentínu þegar hún tekur við embætti varaforseta í desember. Hólmfríður segir að það vanti þriðju launsina, nýjar leiðir til að takast á við stjórnmálalandslagið í áflunni. Þangað til breytist ekkert, og frekari tafir verði á vorinu. 

„Á meðan ekki kemur ný hugsun inn í efnahagsmálin og stjórnmálin, þá verðum við á þessum tímamótum í einhver ár. Ég sé það fyrir mér í Rómönsku Ameríku. Þessar sviptingar eru öfgafullar og það eru margir sem lenda á milli, flestir ef til vill láta sig málin litlu varða, en þeir sem láta sig þau varða hafa mjög sterkar skoðanir og þess vegna slær í brýnu aftur og aftur.“
 
Þangað til stjórnmálamenn geta sýnt að þeir séu traustins verðir, er líklega ekki hægt að kalla þessi fjölmörgu og kröftugu mótmæli víða um rómönsku ameríku, annað en vorhret. En hið rótgróna vantraust almennings á valdhöfum og leiðtogum í álfunni, sýnir svo ekki verður um villst að fólk er orðið langeygt eftir betri tíð með blóm í haga. Eftir sumri. 

„Þetta vantraust á sér rætur ekki bara frá tímum sjálfstæðisbaráttunar, heldur frá tímum yfivalda Spánverja og Portúgala í álfunni, Hugmyndin um að yfirvald er ekki til góðs. Það bar hag þinn ekki fyrir brjósti.“

epa08000853 A man cheers next to a burning barricade during demonstrations at Plaza Baquedano, in Santiago, Chile, 15 November 2019. At least 20 people have died since the protest began over a hike in subway fares.  EPA-EFE/ORLANDO BARRIA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Mótmælandi á götum Santíagó í Síle fyrr í þessum mánuði.
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi