Hin hlægilega og hallærislega ímynd Íslands

Mynd: Tjarnarbíó / Tjarnarbíó

Hin hlægilega og hallærislega ímynd Íslands

26.08.2019 - 10:41

Höfundar

Það er æfingarbragur á leiksýningunni Independent Party People, segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi. „Styrkur hennar er hins vegar þægilegt öryggi fjórmenninganna í samskiptunum við okkur og oft ísmeygileg írónía sem flettir ofan af þeim blekkingarvef sem við hin hvítu erum flækt í.“

María Kristjánsdóttir skrifar:

Í Tjarnargötunni eru reyniberin orðin rauð og í Tjarnarbíói bauð fyrsti sjálfstæði sviðslistahópurinn okkur heim á frumsýningu 21. ágúst. Haustið er sem sagt komið. Sálufélagar heitir hópurinn og nefnir sýninguna Independent Party People. Fjórir Íslendingar eru í hópnum. Tvær konur, tveir karlar, tvær hvítar, tveir brúnir. Sviðshöfundur, dansari, ljóðskáld og leikari eru þar mætt með afrakstur hingað til svokallaðs upp á ensku „devised theatre“ sem þau hafa skemmtilega snúið upp á íslensku og kalla samsköpunarleikhús sem lýsir vel því ferli sem liggur að baki sýningunni.

Þau liggja, sitja, standa makindalega á hvítum lambskinnum í einfaldri pastellitaðri leikmynd Katarinu Blahutovu þegar við áhorfendur göngum í salinn og sötra lengi vel rauðvín og fylgjast með okkur príla í sæti okkar. Þau eru klædd í ævintýralega nánast hallærislega búninga Tönju Huldar Levý Guðmundsdóttur. Sambland af íslenskri lopapeysu, fiðri sem vísar sennilega í lunda, og einhverjum samtíningi af fötum; hnébuxur strákanna minna á fjallaferðir. Sögnin er sterk og skýr í þessum búningum og leikmynd.

Það er sviðshöfundurinn Nína Hjálmarsdóttir sem skammtar félögum sínum rauðvínið og hún er prímus mótor sýningarinnar í ræðu og athöfnum. Henni ferst það vel úr hendi og margir góðir brandarar eru á kostnað ofríkis hennar en það ýtir hinum þremur kannski helst til mikið út á jaðarinn. Piltarnir brúnu fá næstum þjónustuhlutverk í framvindu sýningarinnar og kannski var það með ráðum gert eins og sólóin sem Davíð Þór Katrínarson fær með ljóðum sínum og söngatriði leikarans Jónmundar Grétarssonar. Brúnir hafa oft í sögu hvíta kynstofnsins talist fullgild skemmtiatriði þó lokaðir væru inni í gettóum. Dansarinn Selma Reynisdóttir fær reyndar líka sitt sóló.

Annars eru þau fjögur frá upphafi í samtali við okkur áhorfendur en sviðsetja um leið sjálf sig og þá hvítu karlægu ímynd sem við sem búum í þessu landi höfum selt útlendingum af okkur og erum jafnvel farin að trúa sjálf. Herferðin „Inspired by Iceland“ kemur þar við sögu. Þá brotnar sýningin stundum upp í ágreining hópsins um hvernig eigi að framkvæma hlutina.

Það er engin sýnileg markviss uppbygging í sýningunni. Svolítið eins og við séum stödd á æfingu. Það dregur úr ádeilunni sem form samtalsins býður svo sannarlega upp á. Styrkur hennar er hins vegar þægilegt öryggi fjórmenninganna í samskiptunum við okkur og oft ísmeygileg írónía sem flettir ofan af þeim blekkingarvef sem við hin hvítu erum flækt í. Hún er sem sagt fyndin þessi sýning og full ástæða til að hvetja karla og hvítt fólk til þess að sjá hana. Hlæja að sjálfu sér í klukkutíma. Það er alltaf frelsandi.

Einn af bröndurunum í sýningunni er að það má aldrei vera nema einn brúnn í íslenskum leiksýningum. Það er líka bara ein brún í borgarstjórn Reykjavíkur , hún Sanna Magdalena Mörtudóttir. Hún var mætt á frumsýningu en ég sá hana hvergi í lok sýningar, hefði gjarnan viljað vita hvað henni fannst.

Tengdar fréttir

Leiklist

Flett ofan af ímyndarsköpuninni