Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hin dularfulla Þjófahola mæld út í fyrsta sinn

16.07.2016 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Martin Gasser - Þjófahola
Mynd með færslu
 Mynd: Martin Gasser - Þjófahola
Mynd með færslu
 Mynd: Andrés Skúlason - Þjófahola
Hin dularfulla Þjófahola í Álftafirði hefur verið sveipuð dulúð en hefur nú verið mæld út í fyrsta sinn. Jarðfræðingur sem seig niður í hellinn til mælinga fékk stein í höfuðið og heilahristing.

Aukinn áhugi á hellum á Austurlandi

Á Austurlandi er lítið um stóra hella. Eftir að vöskum mönnum tókst að opna leiðina niður í Skriðnahelli í Njarðvíkurskriðum um hvítasunnuna var ákveðið að rannsaka einnig Þjófaholu, djúpa sprungu í Kjölfjalli í Álftafirði sunnan Djúpavogs.

Seig ofan í mjóa sprunguna

Á Sjómannadaginn fór Martin Gasser jarðfræðingur ásamt föruneyti að holunni og seig niður. „Öðrum megin er bara lítill skúti en hinum megin heldur sprungan bara áfram niður. Frá 8 metra dýpi á að síga áfram niður en þar er frekar mjó sprunga með blokkum og steinum sem eru klemmdir þarna í. Það er eiginlega botnlaust, það er bara hægt að fara niður um 19 metra og svo er stíflað að neðan með grjóti. Og allt er frekar laust þannig að það er frekar hættulegt að fara þarna niður,“ segir Martin.

Frægur leiðangur á Jónsmessunótt árið 1961

Sagt er að Þjófahola dragi nafn sitt af tveimur sauðaþjófum sem þar höfðust við. Holan var síðast heimsótt árið 2008 svo vitað sér. Leiðangur fimm ungra pilta í holuna á Jónsmessunótt árið 1961 vakti mikla athygli enda sagnir um að sprungan væri botnlaus. Einn piltanna Þorsteinn Þorsteinsson, sem ritaði frásögn í jólablað Fálkans sama ár, sagði að í sprungunni hefði ekkert fundist nema gólf sem grjóthrun hefði myndað. Eftir kaðlinum að dæma var það um 30 metra frá stalli ofarlega í hellinum. Loftið í holunni var gott og í leiðangrinum töldu þeir sig afsanna þjóðsögu um að göng lægju úr holunni niður í Draugastein við þjóðbrautina í Álftafirði. Á djupivogur.is má sjá myndir.

Fékk stein í höfuðið

Fimmmenningarnir komust slysalaust úr holunni 1961 en Martin var ekki svo heppinn. Hann segist hafa talsverða reynslu af því að rannsaka lóðrétta hella og hafi hreinsað laust grjót áður en hann seig niður. Þar þurfi að fara um með gát til að valda ekki hruni sem gæti stíflað holuna. „Helst ekki snerta neitt sem er laust og gæti dottið. Og það datt samt steinn á mig. Fékk smá blóðnasir og var ekki viss hvort eitthvað væri brotið.“ Á sjúkrahúsi kom í ljós að hann hafði fengið heilahristing en hann var að sjálfsögðu með hjálm.

„Ekki einu sinn fuglabein“

Hellamenn voru viðbúnir því að finna jafnvel minjar í hellinum en ekkert fannst. „Ekki einu sinni fuglabein sem mér fannst svolítið skrítið. Kannski er skýringin að það er mikið að hreyfast í hellinum og alltaf eitthvað að detta niður eitthvað smátt. Martin hefur teiknað hellinn upp og segir hann dýpri en þó minni en Skriðnahelli. Hellar á Austurlandi hafi ekki mikið verið rannsakaðir. „Það hljóta að vera fleiri hellar til; aðallega á ströndinni. Skriðnahellir er allavega stærsti hellirinn á Austurlandi sem ég þekki og hef heyrt um,“ segir Martin Gasser, jarðfræðingur hjá Breiðdalsetri á Breiðdalsvík. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV