Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Himneskir tónar og hátíðarbragur

Mynd: Hilda Örvars / Hilda Örvars

Himneskir tónar og hátíðarbragur

22.12.2016 - 13:40

Höfundar

Hilda Örvars, sem er af mikilli tónlistarfjölskyldu, gefur hér út plötuna Hátíð. Hér er hvorki sprell eða sprengingar en yfrið nóg af umlykjandi helgi. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er plata vikunnar á Rás 2.

Fyrst af öllu, umslagið. Ég ætla að byrja á því, ekki enda eins og venjulega, því að það segir heilmikið – eiginlega allt – um innihaldið. Umslagið er hvítt, en í fjarska er blíður grámóski, þessi sem maður sér út um gluggann þegar vetur konungur sveipar okkur með notalegu, dúnmjúku tíðarfari. Myndin er naumhyggjuleg (minimalísk) og letugerðin er einföld, sterk og hörð. Á umslaginu eru svo upphleyptar frostrósir sem eru fallegur punktur yfir i-ið. Frostrósirnar eru einnig smekkleg vísun í heimaslóðir Hildu, sem er að norðan, en frostrósirnar finnast gjarnan þar, eru leiðinlega sjaldgæfar hér fyrir sunnan.

Einstigi

Umslagið fangar nefnilega innihaldið fullkomlega. Þegar lagt er upp í svona verk, hátíðlega og helga plötu, er það jafnvægið sem gildir. Það er hægt að ofhlaða og keyra allt upp í botn og útkoman verður þá smekklaus. Sykurmoli sem dýft er í sýróp. Eða að menn lenda á öfugum enda, með laflaust verk án nokkurs persónuleika eða galdurs. Hilda þræðir aftur á móti einstigið glæsilega; platan mjakast áfram í stóískri hægð; strengir, píanó og slagverk styðja af natni við sterkan en um leið blíðan söng Hildu. Lagaval er glúrið, úr ýmsum áttum en öll lögin eru í nefndum gír. Hér er sænskt þjóðlag og íslenskt („Hátíð fer að höndum ein“) en og frumsamin lög, eitt t.a.m. eftir Daníel Þorsteinsson.

Gleðilegt

Bróðir Hildu, Atli, sá um utanumhald (og annar bróðir, Karl, sá um glæst umslagið). Platan var tekin upp fyrir norðan (í Akureyrarkirkju og í Hofi) en einnig í Reykjavík og var hljóðblönduð í Lundúnum. En semsagt, það sem stefnt var á, hafðist og full ástæða til að óska aðstandendum til hamingju. Og í þessum hátíðarham sem ég er nú kominn í óska ég lesendum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar...

Tengdar fréttir

Tónlist

Hilda Örvars - Hátíð

Tónlist

Gefðu mér djass í skóinn

Tónlist

Bræðralagsást í Bítlasetri

Tónlist

Með tónlistina í blóðinu