Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Himalajajöklar bráðna hratt vegna hlýnunar

20.06.2019 - 13:28
Drang Drung-jökull í Himalajafjöllunum.
 Mynd: Wikicommons
Ljósmyndir úr gervihnöttum frá tímum kalda stríðsins benda til þess að jöklar í Himalaja fjallgarðinu bráðna nú helmingi hraðar en þeir gerðu á síðasta fjórðungi síðustu aldar. Vísindafólk telur hlýnun vegna loftslagbreytingar helstu ástæðuna.

Jarðvísindastofnun Columbia-háskóla í Bandaríkjunum bar myndir úr njósnagervitunglum frá 8. áratugnum saman við nýjar gervitunglamyndir.

Myndir af 650 jöklum á Indlandi, Bútan, Kína og Nepal voru skoðaðar á um tvö þúsund ferkílómetra svæði. Eldri rannsóknir hafa sýnt svipaðar niðurstöður, en þessi rannsókn er bæði landfræðilega stærri og nær yfir lengra tímabil.

Joshua Maurer er aðalhöfundur rannsóknarinnar sem birt var í vísindaritinu Science Advances. Hann segir í samtali við Sky að niðurstöðurnar séu skýrasta dæmið hingað til um hve hratt jöklar Himalajafjalla séu að hopa. Að meðaltali hafa átta milljarðar tonna af vatni horfið á ári. Það samsvarar vatni í 3,2 milljónum ólympíusundlauga.

Mest áhrif á jöklana hefur hækkun meðalhita á svæðinu vegna loftslagsbreytinga en hann hefur hækkað um eina gráðu frá aldamótum.

Auk hlýrra loftslags hefur úrkoma hefur minnkað í Himalaya fjalöölum, sem gæti leitt til þess að ís bráðnar hraðar. Brennsla jarðefnaeldsneytis hefur einnig áhrif. Sót sest þá á hjarnið, dregur í sig sólarljós og flýtir fyrir bráðnun. Hop jöklanna getur haft mikil og alvarleg áhrif á vatnsbirgðir landanna í sem liggja að fjallgarðinum.