Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna

epa08106598 Icelandic musician Hildur Guonadottir holds the award for Best Original Score - Motion Picture for 'Joker' in the press room during the 77th annual Golden Globe Awards ceremony at the Beverly Hilton Hotel, in Beverly Hills, California, USA, 05 January 2020.  EPA-EFE/CHRISTIAN MONTERROSA
 Mynd: EPA - RÚV

Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna

13.01.2020 - 13:22

Höfundar

Hildur Guðnadóttir tónskáld er tilnefnd til Óskarsverðlauna í ár fyrir tónlistina í Joker.

Tilnefningar til Óskarsverðlauna voru tilkynntar í dag. Hildur Guðnadóttir tónskáld er tilnefnd fyrir frumsamda kvikmyndatónlist. Alexander Desplat er einnig tilnefndur, fyrir tónlistina í Little Women; Randy Newman fyrir tónlistina í Marriage Story; Thomas Newman fyrir tónlistina í 1917; og John Williams fyrir tónlistina í Star Wars: The Rise of Skywalker.

Hildur er annar Íslendingurinn til að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna í flokknum. Jóhann Jóhanns­son var til­nefndur fyrir The Theory of E­veryt­hing árið 2015 og Si­cario árið 2016. Hildur er eins og gefur að líta eina konan sem tilnefnd er í ár fyrir frumsamda kvikmyndatónlist. Hún er sjötta konan til að fá tilnefningu í flokknum í sögu verðlaunanna.

Sigurganga Hildar hefur vakið mikla athygli, hér heima sem og erlendis. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir tónlist sína í Joker, kvikmynd Todd Philips með Joaquin Phoenix í aðalhlutverki. Þar má nefna Golden Globe-verðlaunin og nú síðast Critics' Choice-verðlaunin. 

Joker fær flestar tilnefningar til Óskarsverðlauna í ár, alls ellefu, þar á meðal sem besta kvikmyndin, Joaquin Phoenix fyrir leik í aðalhlutverki og Todd Philips fyrir leikstjórn.

Heba Þórisdóttir og Fríða Aradóttir komu einnig báðar til greina til Óskarsverðlauna í ár fyrir hárgreiðslu og förðun í kvikmyndunum Once Upon a Time in Hollywood og Little Women en náðu ekki í gegnum niðurskurð.

Óskarsverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn 9. febrúar. Hátíðin verður í beinni útsendingu á RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur Guðnadóttir verðlaunuð af gagnrýnendum

Tónlist

Hildur Guðnadóttir tónlistarmaður ársins hjá Grapevine

Kvikmyndir

Sögulegur sigur Hildar á Golden Globe

Popptónlist

Hildur Guðnadóttir tilnefnd til Grammy fyrir Chernobyl