Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hildur Guðnadóttir í fríðu föruneyti Óskarsbiðla

Mynd með færslu
 Mynd: Oscars

Hildur Guðnadóttir í fríðu föruneyti Óskarsbiðla

28.01.2020 - 10:56

Höfundar

Hildur Guðnadóttir, sem hlaut Grammy-verðlaunin á sunnudag fyrir tónlistina við sjónvarpsþættina Chernobyl, var mætt í árlegan hádegisverð Akademíunnar á mánudag fyrir þá sem eru tilnefndir til Óskarsverðlauna. Síðan var tekin mynd af öllum hópnum þar sem Hildur er í fríðu föruneyti og stendur rétt hjá bandaríska stórleikaranum Brad Pitt.

Sigurganga Hildar að undanförnu hefur verið með miklum ólíkindum. Hún hlaut Emmy-verðlaunin seint á síðasta ári fyrir Chernobyl, hirti síðan Golden Globe-verðlaunin fyrir Joker og var síðan aftur sigurvegari á Grammy-verðlaunahátíðinni um helgina. Svo fátt eitt sé nefnt.

Um næstu helgi verður Hildur síðan í Lundúnum þegar bresku Bafta-verðlaunin verða afhent en þar er hafnfirska tónskáldið tilnefnt fyrir kvikmyndina Joker. Helgina eftir er síðan komið að stóru stundinni en Hildur getur orðið fyrsti Íslendingurinn til að fá hin eftirsóttu Óskarsverðlaun. Og þykir býsna sigurstrangleg.

Hildur mætti í hádegisverð í gær sem Akademían býður til árlega. Þangað mæta þeir sem eru tilnefndir til Óskarsverðlauna og línurnar eru lagðar fyrir verðlaunaathöfnina. Forsvarsmenn hátíðarinnar lögðu til að mynda ríka áherslu á að verðlaunahafar hefðu ræður sínar ekki langar og alls ekki leiðinlegar.