Ljóst er að framleiðendur þurfa að senda inn verk og greiða þátttökugjald til að þau eigi möguleika á tilnefningu. Gjald fyrir innsendingar í fagverðlaun eins og tónlist er 5.000 krónur. Auður Elísabet Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, segir að utan þess að kynna tilnefnd verk sé ekki gefið upp hvaða verk voru send inn í Edduna. Þá vekur hún athygli á að Hildur hafi tvisvar áður verið tilnefnd til Edduverðlauna og unnið í bæði skiptin.
Það er mögulegt að Warner Brothers, sem framleiðir Jókerinn, og HBO-sjónvarpsstöðin, sem stendur á bak við Chernobyl, hafi hreinlega ekki haft fyrir því að senda inn tilnefningar. Hildur er hins vegar tilnefnd til þrennra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum þar sem einnig er nauðsynlegt að senda inn framlög til að fá möguleika á tilnefningu. Þar er hún tilnefnd fyrir plötu ársins í leikhús- og kvikmyndatónlist, bæði fyrir Chernobyl og Jókerinn, auk þess sem hún er tilnefnd fyrir bestu upptökustjórn.
Það að verk sé erlent ,eins og Jóker og Chernobyl, ætti ekki að koma í veg fyrir að Íslendingar sem starfa við það séu tilnefndir til Edduverðlauna, en í starfsreglum Eddunnar segir: „Þó er heimilt að senda nöfn Íslendinga sem taka þátt í myndum annarra þjóða, inn í fagverðlaun Eddu.“ Hver svo sem ástæðan er, er ljóst að Hildur verður að sætta sig við að hún mun ekki bæta Eddunni við í bikarskápinn sem er líklega orðinn þéttskipaður eftir árið.