Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hildur Guðnadóttir ekki tilnefnd til Edduverðlauna

epa08188414 Hildur Gudnadottir attends the 73rd annual British Academy Film Award at the Royal Albert Hall in London, Britain, 02 February 2020. The ceremony is hosted by the British Academy of Film and Television Arts (BAFTA).  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - RÚV

Hildur Guðnadóttir ekki tilnefnd til Edduverðlauna

06.03.2020 - 17:20

Höfundar

Það vekur nokkra athygli að Hildur Guðnadóttir, sem hefur fengið Emmy-, Grammy-, Óskars-, Golden Globe- og Bafta-verðlaun auk fjölda annarra fyrir tónlist sína úr Jókernum og Chernobyl, er ekki tilnefnd til Edduverðlauna í ár fyrir bestu tónlist.

Ljóst er að framleiðendur þurfa að senda inn verk og greiða þátttökugjald til að þau eigi möguleika á tilnefningu. Gjald fyrir innsendingar í fagverðlaun eins og tónlist er 5.000 krónur. Auður Elísabet Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, segir að utan þess að kynna tilnefnd verk sé ekki gefið upp hvaða verk voru send inn í Edduna. Þá vekur hún athygli á að Hildur hafi tvisvar áður verið tilnefnd til Edduverðlauna og unnið í bæði skiptin.

Það er mögulegt að Warner Brothers, sem framleiðir Jókerinn, og HBO-sjónvarpsstöðin, sem stendur á bak við Chernobyl, hafi hreinlega ekki haft fyrir því að senda inn tilnefningar. Hildur er hins vegar tilnefnd til þrennra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum þar sem einnig er nauðsynlegt að senda inn framlög til að fá möguleika á tilnefningu. Þar er hún tilnefnd fyrir plötu ársins í leikhús- og kvikmyndatónlist, bæði fyrir Chernobyl og Jókerinn, auk þess sem hún er tilnefnd fyrir bestu upptökustjórn.

Það að verk sé erlent ,eins og Jóker og Chernobyl, ætti ekki að koma í veg fyrir að Íslendingar sem starfa við það séu tilnefndir til Edduverðlauna, en í starfsreglum Eddunnar segir: „Þó er heimilt að senda nöfn Íslendinga sem taka þátt í myndum annarra þjóða, inn í fagverðlaun Eddu.“ Hver svo sem ástæðan er, er ljóst að Hildur verður að sætta sig við að hún mun ekki bæta Eddunni við í bikarskápinn sem er líklega orðinn þéttskipaður eftir árið.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Hvítur, hvítur dagur með flestar tilnefningar

Menningarefni

Hildur vann Óskarinn fyrst Íslendinga

Popptónlist

Hildur Guðnadóttir tilnefnd til Grammy fyrir Chernobyl

Tónlist

Hildur hlaut Emmy verðlaun fyrir Chernobyl