Hildur hvílist sjálf í kaliforníunóttinni vestanhafs. Finnur Torfi segist hafa beðið með að heyra í henni persónulega af því það hefði verið svo mikið að gera hjá þeim í nótt. En velgengni Hildar kemur honum ekki á óvart. „Hún hefur unnið mjög hörðum höndum að þessu mjög lengi. Ég og Ólafur bróðir minn höfum í mjög mörg ár alltaf kallað hana flaggskipið þar sem okkur finnst hún vera flaggskip fjölskyldunnar,“ segir hann „Hún hefur verið að gera rosa flotta tónlist í mjög mörg ár og það er rosa gaman að hún fái þessa athygli á heimsvísu.“
Veistu hvað hún er að fara að gera næst, hvað tekur við? „Mér skilst á henni að hún hafi verið byrjuð að leggja drög að verkefnum sem hafi farið að tefjast pínu kannski út af öllum þessum verðlaunaafhendingum en ég held hún ætli að einbeita sér að verkefnum sem eru ekki kvikmyndatengd í einhvern tíma,“ segir Finnur Torfi jafnframt.