Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hildur er sjónvarpstónskáld ársins

Mynd með færslu
 Mynd: NN - Facebook

Hildur er sjónvarpstónskáld ársins

19.10.2019 - 01:21

Höfundar

Hildur Guðnadóttir, sellóleikari og tónskáld, var í kvöld útnefnd sjónvarpstónskáld ársins á Heimshljóðrásar-verðlaunahátíðinni, World Soundtrack Awards, sem haldin er í belgísku borginni Ghent á ári hverju.

Verðlaunin fær Hildur Guðnadóttir fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttaröðinni Tsjernóbíl. Það er skammt stórra högga á milli hjá Hildi, því hún vann á dögunum einnig til Emmyverðlauna fyrir tónlist sína við þessa sömu þáttaröð.  

Í þakkarávarpi sínu hlóð Hildur samstarfsfólk sitt lofi en tileinkaði móður sinni, söng- og útvarpskonunni Ingveldi G. Ólafsdóttur verðlaunin. Sagði hún viðstöddum að Ingveldur hefði snemma kennt henni að tónlistin væri mun mikilvægara og merkilegra fyrirbæri en allar veraldlegar eigur. Það hefði hún svo sýnt í verki með því að selja bílinn sinn til að fjármagna kaupin á fyrsta sellói Hildar. „Mamma, þetta er fyrir þig," sagði Hildur að lokum og lyfti verðlaunagripnum hátt á loft svo mamma hennar, sem var í salnum, sæi hann nú örugglega.

World Soundtrack-verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2001 og er þetta þriðja árið í röð sem íslenskt tónskáld hreppir ein af aðalverðlaunum hátíðarinnar, því Jóhann Jóhannsson var valinn kvikmyndatónskáld ársins 2017 og 2018, meðal annars fyrir tónlistina í myndinni Mandy, Mary Magdalene, sem hann samdi einmitt í samvinnu við Hildi. 

Horfa má á verðlaunaafhendinguna og þakkarræðu Hildar á Facebooksíðu World Soundtrack Awards með því að smella á þennan hlekk.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur Guðnadóttir til Deutsche Grammophon

Menningarefni

Tónlist Hildar breytti Phoenix í Jókerinn

Tónlist

Hildur hlaut Emmy verðlaun fyrir Chernobyl