Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

HÍ færir íþróttafræðinám til Reykjavíkur

Mynd með færslu
 Mynd: Kristrún Sigurfinnsdóttir - RÚV
Háskólaráð Háskóla Íslands ákvað í dag að flytja námsbraut í íþrótta og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Námið verði flutt til Reykjavíkur í áföngum þannig að nýir nemendur hefji nám í Reykjavík næsta haust, en nemendur annars og þriðja árs verði næsta vetur á Laugarvatni. Í samþykkt sinni segir Háskólaráð námið sé flutt vegna fækkunar nemenda. Helsta ástæða fækkunarinnar sé sú að nemendur vilji síður sækja námið til Laugarvatns.

Í samþykkt Háskólaráðs er þess einnig getið að stefnt sé að því að nota aðstöðu Háskólans á Laugarvatni til annarra verkefna eftir því sem fjármagn og tækifæri leyfi. Háskólaráð hitti bæði þingmenn Sunnlendinga og sveitarstjórnarmenn stuttlega á fundi sínum í dag. Skömmu síðar var fundi slitið og yfirlýsing send út til starfsmanna Háskólans. Velunnarar námsins á Laugarvatni sem Fréttastofa hefur náð sambandi við í dag eru mjög ósáttir við niðurstöðuna. Háskólaráð hefur í tvígang frestað ákvörðun í málinu. Einn viðmælandi fréttastofu sagði að frestanir háskólaráðs í þessu máli hefðu verið blekkingarleikur einn, ljóst megi vera að ákvörðunin hafi fyrir löngu legið fyrir. Í greinargerð Háskólaráðs vegna ákvörðunarinnar segir meðal annars að námið sé flutt vegna fækkunar nemenda. Til fækkunarinnar liggi eflaust margar ástæður, en þó sú helst að nemendur vilji ekki sækja námið til Laugarvatns.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV