Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heyskapur í fullum gangi

08.06.2014 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Bændur eru byrjaðir að hirða hey á nokkrum bæjum, bæði sunnan heiða og norðan. Heyskapur hófst sums staðar allt að tveimur vikum fyrr en venja er.

Tíðarfar hefur verið óvenju gott þetta vorið - hlýtt í veðri, sólskin en þó næg rigning. Bændur á nokkrum bæjum sem fréttastofa hefur rætt við, segja að spretta sé afar góð. Nokkrir bændur byrjuðu að slá á föstudag, þegar ekki var liðin vika af júnímánuði.

Kári Ottósson, bóndi í Viðvík í Skagafirði, segir að það hafi hjálpað til að það var enginn jarðklaki í vor. Þá hafi tíðin verið góð og engin kuldahret komið. Kári segist hefja heyskap um tveimur vikum fyrr en venjulega. „Það hefur aldrei verið byrjað svona snemma.“

Sunnan heiða eru menn einnig byrjaðir í heyskap. Fréttasíðan Skessuhorn ræddi við bændur í Reykholtsdal sem sögðust aldrei hafa byrjað jafn snemma og nú. Í Hvalfjarðasveit var einnig byrjað að slá á föstudag. Í hlýindaveðrinu yfir helgina hefur heyið þornað fljótt, svo hægt var að binda það í heybagga í dag og flytja í hlöðu.