Hestamenn segja reiðvegi hafa orðið útundan

07.01.2020 - 07:05
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Hestamenn telja að reiðstígar hafi orðið útundan í samgönguáætlun næstu ára. Þetta kemur fram í umsögn Landssambands hestamanna um þingsályktanir um samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi. 

Telja hestamenn að tvöfalda þurfi framlög til reiðstíga hið minnsta frá því sem nú er. Reiðvegafé nemur samkvæmt áætlun 76 milljónum króna á ári næstu fimm árin en 80 milljónum króna á ári næstu tíu árin á eftir. Telja hestamenn að miðað við verðlagsforsendur ætti fé í reiðvegi nú að vera tæpar 108 milljónir króna. 

Í umsögn Landssambands hestamanna segir að hestatengd starfsemi skapi þjóðarbúinu gríðarlega fjármuni á hverju ári. Er vísað til gagna þar sem fram kemur að gjaldeyristekjur af hestamennsku hafi numið 7,5 milljörðum króna árið 2001. Það ár hafi 14 prósent þeirra ferðamanna sem komu til Íslands að sumri sótt í afþreyingu sem tengist íslenska hestinum og 8 prósent þeirra sem komu til Íslands að vetri. Þá er bent á að gjaldeyristekjur af útflutningi hrossa hafi verið tæpir ellefu milljarðar á árunum 2007 fram í júlí á síðasta ári. 

Landssamband hestamanna segir reiðvegi á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið byggða upp að verulegu leyti með frjálsu vinnuframlagi hestamanna sjálfra, en vissulega með framlögum frá ríki og sveitarfélögum. Kalla megi verkefnið krónu á móti krónu, þar sem gríðarleg sjálfboðaliðavinna hestamanna búi að baki og hestamenn séu reiðubúnir til að bæta í. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV