Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hertar reglur Hornstrandafriðlands taka gildi

18.02.2019 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: ?? - imkid.com
Samkvæmt nýrri stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum er óheimilt að tjalda hvar sem er og landtöku fólks á skemmtiferðaskipum eru settar þröngar skorður. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir að markmiðið sé að halda í kyrrð og ósnortið land fyrir komandi kynslóðir.

Stjórnar- og verndaráætlun tók gildi á föstudaginn

Stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið tók gildi á föstudaginn en hún var unnin af samstarfshópi landeiganda, skipulagsyfirvalda og Umhverfisstofnunar. Hún markar stefnu fyrir verndun friðlandsins, en Hornstrandir voru friðlýstar árið 1975 og í henni einnig aðgerðaáætlun til ársins 2023 um forgangsröðun aðgerða sem þykir brýnt að grípa til svo að verndargildi friðlandsins haldist. Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, bendir á að ferðavenjur hafi breyst mikið síðan að friðlýsingarskilmálarnir tóku gildi og því er leitast við að skýra til dæmis reglur um umferð og dvöl: „Erum þá í raun að hafa lítil áhrif á heimkomur landeiganda sem fara til sinna húsa. Við erum miklu frekar að skýra reglur fyrir aðra gesti svæðisins.“

Landtaka skemmtiferðaskipa takmörkuð

Samkvæmt áætluninni má til dæmis aðeins tjalda á merktum tjaldsvæðum þar sem er hreinlætisaðastaða, ekki fara um á reiðhjólum, hundahald er bannað nemað í tilfellum hunda landeigenda, sem þurfa að vera í taumi, og björgunar- og þjónustuhunda. Þá eru hópastærðir í friðlandinu takmarkaðar, miðað við 30 manns í vestari hluta friðlandsins en 15 manns í austari hlutanum. Í tilfellum stærri hópa er hægt að sækja um undanþágu til Umhverfisstonfunar. Þá er koma skemmtiferðaskipa takmörkuð. „Landtaka báta sem eru með fleiri en 50 um borð er ekki heimil innan svæðisins og þar með erum við að takmarka landtöku skemmtiferðaskipa,“ segir Kristín Ósk. Þá á að óska eftir því að Landhelgisgæslan uppfæri siglingakort með tilliti til banns við umferð skipa nær sjófuglabyggðum en 115 metrum og kvikmyndun og ljósmyndun, sem getur haft áhrif á náttúru og lífríki svæðisins og upplifun gesta, er háð leyfi Umhverfisstofnunar.

Vilja viðhalda kyrrðinni í friðlandinu

Kristín segir áherslu á að viðhalda kyrrð í friðlandinu og því sé til dæmis óheimilt að lenda þar á þyrlu sem og fljúga drónum. Þá er ekki leyfilegt að lenda flugvélum innan friðlandsins utan skilgreindara lendingarstaða. „Við erum í raun og veru að reyna að halda svæðinu eins ósnortnu og hægt er þannig að það sem við höfum verið að sækja í undanfarna áratugi verði ennþá hægt að sækja í fyrir komandi kynslóðir.“