Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hert samkomubann: söfnum og sundlaugum lokað í dag

24.03.2020 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Söfnum, skemmtistöðum, sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, fjölda verslana og veitingastaða verður lokað tímabundið í dag. Þá verður hárgreiðslustofum lokað og öllu skemmtanahaldi verður aflýst. Öll starfsemi sem krefst nándar innan tveggja metra er bönnuð.

Á miðnætti tók í gildi strangara samkomubann en áður hafði verið í gildi hér á landi. Nú mega aðeins 20 manns koma saman í einu í stað 100 áður. Þetta er gert til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar eins og hægt er. Bannið gildir til 12. apríl.

Sérstakar reglur gilda um apótek og matvöruverslanir. Þær verða áfram opnar en tryggja þarf að nánd milli fólks verði yfir tveimur metrum. 

Engir skipulagðir viðburðir

Skipulagðir viðburðir sem bannið nær til eru meðal annars:

  • Ráðstefnur, málþing, fundir og hliðstæðir viðburðir.
  • Skemmtanir, s.s. tónleikar, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburðir og einkasamkvæmi.
  • Trúarathafnir hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.
  • Sund­laug­um, lík­ams­rækt­ar­stöðvum, skemmtistöðum, spila­söl­um, spila­köss­um og söfn­um skal lokað meðan á þess­um tak­mörk­un­um stend­ur.

Ekkert íþrótta- og æskulýðsstarf

Töluverðar takmarkanir eru á skólahaldi á meðan á samkomubanni stendur. Framhalds- og háskólum hefur verið lokað og nemendur stunda fjarnám. 

  • Takmarkanirnar gilda um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en einnig aðrar menntastofnanir, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf.

  • Allt íþróttastarf barna og fullorðinna þar sem nálægð er minni en tveir metrar og einhver sameiginleg notkun á búnaði er fyrir hendi er bönnuð, þar með taldar skíðalyftur.

  • Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla, sjá leiðbeiningar um börn og samkomubann.

  • Hlé er gert á íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu

Engin klipping og ekkert nudd

  • Starfsemi þar sem nálægð er mikil er bönnuð og gildir það til dæmid um hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og aðra slíka starfsemi. Sjúkraþjálfun sem er mikilvæg vegna endurhæfingar er heimil með skilyrðum um öflugar sóttvarnaráðstafanir.

Samkomubannið nær ekki til alþjóðaflugvalla eða alþjóðahafna, flugvéla eða skipa.