Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hermenn hefta för flóttamanna til Mexíkó

19.01.2020 - 03:30
epa08139873 Honduran migrants rest near the Mexico-Guatemala border crossing, at Rodolfo Robles, Tecun Uman, Guatemala, 18 January 2020.  EPA-EFE/ESTEBAN BIBA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mexíkóskir hermenn héldu aftur af um 1.500 flóttamönnum frá Mið-Ameríku við landamærin að Gvatemala. Einn hermannanna tjáði flóttamönnunum í gegnum gjallarhorn að ferðalag þeirra væri til einskis ef þeir væru ekki með vegabréfsáritun eða önnur gögn til að komast yfir landamærin.

Flestir flóttamannanna freista þess að komast til Bandaríkjanna, en hermaðurinn sagði þeim að þeir gætu gleymt því að sækja um alþjóðlega vernd þar. 

Leiðangur margra flóttamanna hófst á þriðjudag. Flestir eru þeir frá Hondúras og El Salvador. Mexíkóski herinn bjó sig undir komu um 3.000 flóttamanna. Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, auglýsti 4.000 laus störf í landinu til að reyna að freista flóttamannanna um að dvelja þar áfram.

Mikill þrýstingur frá Bandaríkjunum

Bandaríkjastjórn hefur þrýst verulega á Mexíkó um að halda flóttamönnum frá því að komast að landamærunum til Bandaríkjanna. Donald Turmp, forseti Bandaríkjanna, hótaði Mexíkóum innflutningstollum ef yfirvöld sunnan landamæranna gerðu ekki meira til að stöðva för flóttamanna norður. Um 27 þúsund þjóðvarðliðar voru kallaðir út til að gæta landamæranna að Gvatemala betur, auk þess sem Mexíkóstjórn samþykkti að taka við 40 þúsund flóttamönnum á meðan umsókn þeirra um alþjóðlega vernd velkist um í bandaríska kerfinu.

Nokkrir flóttamannanna kröfðust þess að fá að fara yfir brúnna yfir ána Suchiate, sem skilur að Ciudad Hidalgo í Mexíkó og Ciudad Tecun Uman í Gvatemala. Tugir ákváðu hins vegar að láta gott heita í bili og sneru við í flóttamannabúðir í Gvatemala. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV