Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hermenn ganga vegslóða í Þjórsárdal

15.10.2018 - 12:14
Innlent · NATO
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
800 landgönguliðar verða við æfingar í Þjórsárdal um næstu helgi á vegum Atlantshafsbandalagsins. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu verður þetta ekki heræfing heldur ganga landgönguliðarnir eftir vegslóðum og þess verði sérstaklega gætt að ekki verði nein spjöll á umhverfi eða öðru.

Sérsveitin noti þessa vegaslóða til æfinga og það hafi varnarliðið einnig gert áður. Æfingin standi yfir í tvo daga. Hún snúist um að 400 landgönguliðar gangi hvorn daginn með útbúnað ákveðna vegalengd til þess að átta sig betur á aðstæðum í köldu loftslagi. Þetta sé dæmigerð vetraræfing á vegum Atlantshafsbandalagsins.

Fram kom í fréttum um helgina að félagar í Vinstri grænum hyggjast gera sér ferð í Þjórsárdal um helgina til að mótmæla varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins. Bæði vegna andstöðu flokksins við aðild Íslands að NATO og vegna áhyggja af fornminjum í Þjórsárdal. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra neitaði því í fréttum helgarinnar að fyrirhuguð mótmæl væru henni óþægileg. Þátttaka í ríkisstjórn skerði ekki tjáningarfrelsi fólks.  

Varnaræfingin í Þjórsárdal um helgina er ekki eina æfing vikunnar á vegum NATO því á miðvikudag verður æfing í Sandvík, nærri Höfnum í Reykjanesbæ, og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 400 manna bandarískt landgöngulið æfir lendingu í Sandvík en um 120 landgönguliðar verða fluttir með þyrlum á öryggissvæðið þar sem æfð verða viðbrögð við árás á stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands. 

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kemur fram að um tíu herskip komi til Reykjavíkur um næstu helgi á skipulagsráðstefnu vegna aðalæfingarinnar sem verður í Noregi. Herskipin séu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og Kanada og allt að sex þúsund sjóliðar um borð.  Skipin halda svo til Noregs á sunnudag.