Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Herða öryggisreglur eftir banaslys í Silfru

24.02.2017 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Köfunarfyrirtækið Dive.is hefur hert öryggisreglur sínar eftir að maður lést við snorkl í Silfru fyrir um tveimur vikum síðan. Það var fjórða banaslysið í Silfru frá árinu 2010 en til viðbótar hafa þar orðið sex alvarleg slys.

Maðurinn sem lést var á sjötugsaldri. Fyrirtækið fer nú fram á að allir yfir sextugu eða sem hafa sjúkrasögu, sem vilja fara að snorkla eða í köfun skili læknisvottorði. Fyrirtækið hefur sent út tilheyrandi vottorð sem fólk þarf að skila inn, fyllt útaf lækni, á alla söluaðila sína. Samkvæmt eiganda fyrirtækisins, Tobias Klove, þá hafði staðið til lengi að herða aldursreglur hjá fyrirtækinu.

„Við vorum búin að vera lengi með það á borðinu hjá okkur að hafa skilyrði vegna aldurs.. Þegar við heyrðum af slysinu þá ákváðum við að setja reglur,“ segir hann. „Líka bara til þess að fólk átti sig á að þetta er ekkert eins og að sitja í heita potti, þetta er mjög kalt vatn og getur verið erfitt,“ segir Tobias. 

Unnið er að því að herða öryggisreglur enn frekar og hefur sú endurskoðun staðið yfir í einhvern tíma.  „Við leggjum mikið upp úr öryggi og okkar öryggisreglur hafa þróast mikið. Við höfum verið með harðari reglur en lögin gera ráð fyrir. Við erum alltaf að skoða þetta og myndum gjarnan vilja setjast niður með stjórnvöldum til þess að ræða þetta betur.“