Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Herbörnum sleppt í Nígeríu

11.05.2019 - 07:45
epa03095737 Nigerian boys sift through the remains of the Gamboru market after multiple explosions in Maiduguri, northern Nigeria, 07 February 2012. Three people have died in bomb blasts by the radical Islamist group Boko Haram in northern Nigeria, police
 Mynd: EPA
Nígerísk hersveit, sem styður stjórnarherinn í baráttunni við hryðjuverkasamtökin Boko Haram, sleppti nærri 900 börnum úr þjónustu sinni. Nú hefur alls 1.700 börnum verið sleppt úr herþjónustu sveitarinnar eftir að hún undirritaði samkomulag við Sameinuðu þjóðirnar árið 2017 um að hætta að taka börn inn í herinn og láta þau taka þátt í átökum.

Guardian hefur eftir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að yngstu börnin sem losnuðu úr hernum voru 13 ára gömul, en þau elstu 19 ára. Þau börðust gegn Boko Haram í norðausturhluta landsins, og var sleppt við hátíðlega athöfn í bænum Maiduguri.

Mohamed Fall, framkæmdastjóri UNICEF í Nígeríu, segir þetta skref í rétta átt. Guardian hefur eftir honum að börn hafi borið hitann og þungann af átökunum í norðausturhluta landsins. Þau hafi verið notuð í hernað bæði af sveitum hliðhollum stjórnarhernum og Boko Haram, auk þess sem þau hafi orðið vitni að morðum og ofbeldi. Alls er talið að Boko Haram hafi fengið yfir 3.500 börn til liðs við samtökin á árunum 2013 til 2017. Mörg þeirra hafa þeir notað í sjálfsmorðssprengjuárásir.

Kusali Nellie Kubwalo, starfsmaður UNICEF í Nígeríu, segir að þau börn sem voru tekin frá fjölskyldu sinni fari aftur í faðm hennar í dag. Þau koma til með að hljóta styrki til menntunar og annarrar þjálfunar. 

Ekki sér fyrir endann á áralangri baráttu Nígeríu við tvær vígahreyfingar íslamista, Boko Haram og íslamska ríkið í vesturhluta Afríku. Yfir 30 þúsund hafa látið lífið í átökunum og milljónir hafa orðið að flýja heimili sín.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV