Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Héraðsdómur samþykkir flýtimeðferð

10.07.2015 - 16:26
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur samþykkt að veita Fanneyju Björk Ásbjörnsdóttur flýtimeðferð í máli sem hún höfðaði gegn ríkinu fyrir að synja henni um nauðsynleg lyf við lifrarbólgu. Ríkið hefur nú tvær vikur til að skila greinargerð um málið sem verður líklegast tekið fyrir í ágúst.

Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmaður Fanneyjar, segir ekki sérstaklega algengt að mál fái flýtimeðferð. Það sé bara samþykkt þegar um mjög ríka hagsmuni sé að ræða. Nú hafi ríkið tvær vikur til þess að skila greinargerð um málið. „Þá sjáum við varnir ríkisins í málinu,“ segir Páll. „Auðvitað vonar maður alltaf að þeir sjái villu síns vegar."

Pottur brotinn í stjórnsýslunni
Hann segir óþolandi að fólk þurfi að sækja mannréttindi sín fyrir dómstólum. „Það er verið að neita fólki um lyf sem það á rétt á,“ segir Páll. „Það er pottur brotinn einhverstaðar í stjórnsýslunni.“

„Íslenska ríkið er trekk í trekk að snuða fólk um mannréttindi þess,“ segir hann. „Þetta er auðvitað átakanlegt og á raunverulega ekki að gerast.“ Hann segir að lyfin sem Fanney vill fá séu ódýr, í stóra samhenginu, og svo líkleg til þess að bera árangur að það sé ekki réttlætanlegt að neita henni um þau.

Mannréttindi alger og ótengd pólitík
„Löggjafinn á Íslandi hefur ekki sett nein lög sem hægt er að byggja á hvað varðar það að takmarka rétt til aðgangs að lyfjum,“ segir Páll. Hann segir þetta skiptast í tvennt; mannréttindi, sem ekki verði af fólki tekin, og pólitík.

„Mannréttindi eru ekki pólitík,“ segir Páll. „Mannréttindi breytast ekki frá kjörtímabili til kjörtímabils. Þau eru stöðug. Þau eru alger. Þau eru ekki höfð af fólki af einstaka stjórnmálamanni.“

Katrín Johnson
Fréttastofa RÚV