Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Henti handritinu frá sér við fyrsta lestur

Mynd: RÚV / RÚV

Henti handritinu frá sér við fyrsta lestur

19.01.2020 - 12:28

Höfundar

Borgarleikhúsið frumsýndi á föstudag nýtt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson. Verkið nefnist Helgi Þór rofnar og gerist í líkbrennslu og bakaríi í Kópavogi. Þetta er fimmta verkið sem Borgarleikhúsið tekur til sýninga eftir Tyrfing, sem fæddist árið 1987, og hefur vakið mikla athygli fyrir frumleg og nýstárleg verk á undanförnum árum.

Áður hefur Borgarleikhúsið sýnt eftir Tyrfing leikritin Bláskjá, Auglýsingu ársins, Skúrinn á sléttunni og Kartöfluæturnar. Síðastnefnda verkið verður sett upp í einu virtasta leikhúsi Hollands, Toneelgroep Oostpool, sem hefur einnig tryggt sér réttinn á nýja leikritinu, Helgi Þór rofnar. Stefán Jónsson leikstjóri verksins segir að Tyrfingur Tyrfingsson hafi einstaka rödd sem leikskáld. „Hans stíll í skrifum, orðfærið, og persónugalleríið, er ólíkt öllu öðru má segja, hérlendis allavega. Hann er mjög litskrúðugur karakter sem manneskja, hann Tyrfingur, fullur af mennsku og kærleika, og breyskleika eins og við öll svosem, en þetta nær hann að fanga á alveg einstakan og persónulegan hátt í sínum verkum.“

Mynd: RÚV / RÚV
Fjallað var um leikritið í Menningunni

Að brenna lík og baka brauð

Leikritið gerist eins og áður segir í líkbrennslu og bakaríi í Kópavogi. „Þetta eru svona þessir tveir pólar,“ segir Stefán. „Líf og dauði, brauðið er bakað og maðurinn er brenndur á hinum endanum. Þarna á milli er gangur lífsins og verkið gerist þar.“

Söguhetjan Helgi er líksnyrtir sem býr við ofríki föður síns og þarf að brjótast út úr ákveðnum vítahring, álögum sem tengjast spádómi sem faðir hans varpar fram um að líf Helga sé í stórhættu. „Hann býr við mikið ofríki föður,“ segir Stefán. „Það má segja að það séu hans álög að fæðast inn í það. Snemma í verkinu kemur fram spádómur, álög frá föðurnum, sem eiga eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Þarna kallast á hjátrúin og spádómarnir, eða trú á slíkt, sem er einmitt mjög ríkt í Íslendingum.“ Margt breytist og  lífsneisti kviknar í Helga þegar ung stúlka kemur inn í líf hans en allt snýst þetta um það að koma í veg fyrir að spádómurinn rætist. „Á öðru plani fjallar þetta um það að fæðast inn í ákveðnar kringumstæður þar sem þú ert einhvern veginn brennimerktur frá fyrstu tíð og það eru komin álög á þig. Við erum hvert um sig, sérstaklega í nútímanu, að takast á við allt okkar tráma með því að fara til sálfræðings og fara á allskonar fundi í tólf-spora samtökum. Þetta er líka verk um meðvirkni og ég vona að allir meðvirkir Íslendingar, sem eru flestir, mæti á sýninguna.“

Gaman að læsa tönnum í „gott stöff“

Stefán segir leikritið einstaklega vel skrifað og vel upp byggt. Grimmt verk og orðfærið gassalegt, svo gassalegt að hann allt að því henti handritinu frá sér við fyrsta lestur. “En síðan við frekari lestur og vitandi að Tyrfingur leynir einatt á sér þá sogaðist ég inn í verkið og fann hjartað slá í því. Og harmleikurinn kom svo sterkt til mín, gríski harmleikurinn.“

Stefán segist ekki hafa viljað nota verkið til ganga fram af fólki. „Þessi verk hans hefðu ekki orðið svona vinsæl ef þetta væri bara yfirborðs dónaskapur. Hann gengur nærri sínum karakterum en hann gerir það af samlíðan. Þrátt fyrir þennan hráslaga á yfirborðinu bæði í orðfæri og persónum þá er undir niðri eitthvað heilagt. Og það er kannski það sem mér finnst mikilvægt að birtist í uppsetningum á verkum hans.“

Hann bætir því við að mikil dýnamík sé í verkinu og það búi yfir mörgum víddum. „Þetta er virkilega gott stöff sem er gaman að læsa tönnunum í og takast á við á sviði. Og verandi með rosalega fína leikara sem að harmleikur kallar á, það er ekki hægt að vera í neinni léttvigt hérna, fjaðurvigt, þarna þarf að vera með þungavigtarleikara og ég er svo heppinn að hafa fengið góða leikara með mér í lið og samstarfsmenn.“

Leikarar í verkinu eru þau Hilmar Guðjónsson, Bergur Þór Ingólfsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson og Erlen Ísabella Einarsdóttir. Stefán segir aðspurður að það sé afar skemmtilegt að fást við verk Tyrfings, þeir nái mjög vel saman og tali sama tungumál. „Við höfum þekkst lengi, ég kenndi honum meira að segja í Listaháskólanum og okkur varð strax vel til vina og höfum skap og húmor saman. Það er margt sem er einkennandi fyrir hann sem ég er þekktur fyrir í mínum áherslum í leikhúsinu, sérstaklega sem leikstjóri. Þannig að það hefur gengið ótrúlega vel, okkar samstarf.“

Skrifar með rækjukokteil á Kanarí

Stefán Jónsson segir að Tyrfingur sé að þroskast sem höfundur og að í þessu verki sé hann ótrúlega agaður í skrifum sínum. Hann verði stöðugt fagmannlegri án þess að missa sín sérkenni. „Nú býr hann í Amsterdam og ég veit að hann sækir þar listina alveg grimmt, og hún er nú ansi flott þar og á meginlandinu. Ég veit að hann fer mikið í óperuna og svo er hann að skrifa, og skreppur til Kanarí reglulega til þess að skrifa. Þar finnst honum gott að vera, með sinn rækjukokteil. Og þetta er akkúrat svolítið mikill Tyrfingur, krumminn á skjánum, skítugur á tánum.“

Rætt var við Stefán Jónsson í Víðsjá. 

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Við erum öll fokking druslur“

Leiklist

Gamalt, ryðgað skilti

Myndlist

Sálumessa plasts og sundbolti

Leiklist

Tekur ekki persónurnar með sér á koddann