Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Henning Mankell látinn

05.10.2015 - 10:14
epa02180812 (FILE) A file picture dated 24 June 2009 of Swedish crime author Henning Mankell. A commando unit of Israel's Armed Forces stormed ships of the so-called Freedom Flotilla, six ships bound for the Gaza Strip with aid, on early 31 May 2010.
 Mynd: EPA - DPA
Sænski rithöfundurinn Henning Mankell er látinn, 67 ára að aldri. Forlag Mankells tilkynnti þetta á vef sínum í dag. Þar segir að Mankell hafi látist í svefni í nótt á heimili sínu í Gautaborg, en hann hafði barist við krabbamein.

Mankell greindi frá því í byrjun síðasta árs að hann hefði greinst með alvarlegt krabbamein. Hann skrifaði um baráttu sína við meinið í greinaflokki í Gautaborgarpóstinum og í bókinni Kviksandur sem út kom á sænsku í fyrra.

Mankell gaf út á fimmta tug bóka og leikrita á ferlinum, bækur hans voru þýddar á tugi tungumála og hafa selst í meira en fjörutíu milljónum eintaka um heim allan.

Þekktasta sköpunarverk hans er lögreglumaðurinn Kurt Wallander, sem leysir erfið sakamál í skánska bænum Ystad.

Bækurnar um Wallander eru tólf talsins og kom sú fyrsta út 1991 og síðasta 2013. Vinur Mankells, Dan Israel, segir við dagblaðið Dagens Nyheter að Mankell hafi haft hug á að skrifa eina enn til að halda upp á 25 ára afmæli persónunnar á næsta ári.

Sjónvarpsmyndir og -þættir um Wallander hafa notið mikilla vinsælda víða í Evrópu um árabil. Fjórir leikarar hafa túlkað kappann — Svíarnir Rolf Lassgård, Lennart Jähkel og Krister Henriksson — og svo lék breski leikarinn Kenneth Branagh Wallander í nýlegri seríu úr smiðju BBC.

Átján bækur eftir Mankell hafa komið út í íslenskri þýðingu. Þar eru bækurnar um Wallander og aðrar glæpasögur fyrirferðamestar en einnig hafa fjórar unglingabækur Mankells um drenginn Jóel Gústafsson komið út á íslensku.

Auk ritstarfa var Mankell þekktur fyrir mannréttindabaráttu. Hann tók virkan þátt í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku, sigldi með Ship to Gaza til Gazastrandarinnar árið 2010 og gaf ríkulega til ýmissa góðgerðarmála.