Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hélt þetta væri eins og með Jesú og jólin“

Mynd með færslu
 Mynd:
Ættingjar Sigþrúðar Friðriksdóttur sem fæddist á fullveldisdaginn 1918 komu saman í dag til að minnast hennar. Börnunum hennar fannst ekkert skrýtið að flaggað væri á afmælisdegi mömmu og strætisvagnar prýddir fánum. Sigþrúður tengdist inn í fjölskyldu forsætisráðherra þess tíma. Forsætisráðherrahjónin urðu fyrir miklu áfalli, skömmu áður en fullveldi náðist.

Súkkulaði fyrst, svo kaffi

Sigþrúður lést árið 2008. Afkomendur hennar héldu upp á að hundrað ár eru í dag liðin frá fæðingu hennar. Þetta var gert með veglegu boði í hennar anda. Hún hélt alltaf upp á afmælið enda rauður dagur og bauð mörgum. Marta Bergmann, dóttir hennar segir að fyrir afmælið hafi verið búið að baka allar sortir og að í gamla daga hafi súkkulaðið alltaf verið drukkið á undan kaffinu. Afmæli Sigþrúðar markaði upphaf aðventunnar hjá fjölskyldunni. 

Börnunum fannst fyrst um sinn ekkert skrítið að það væri flaggað á afmæli mömmu. „Ég hugsaði það líkt og með Jesú og jólin og Jón Sigurðsson og 17. júní það var ekki fyrr en ég kom í barnaskólann sem ég áttaði mig á að þetta var ekki samskonar tenging,“ segir Marta, dóttir Sigþrúðar. Í viðtali sem tekið var við Sigþrúði og birtist í Morgunblaðinu daginn sem bæði hún og fullveldið stóðu á fimmtugi, segir hún að það sama hafi átt við um drengina hennar, sem hún eignaðist síðar. Þeim hafi alltaf fundist eins og verið væri að flagga fyrir mömmu þeirra.

Föðursystir gift forsætisráðherra

Mynd með færslu
 Mynd:

Föðursystir Sigþrúðar, Þóra Jónsdóttir Magnússon var gift forsætisráðherra þess tíma, Jóni Magnússyni og það var mikill samgangur milli fjölskyldna. Jóni og Þóru varð ekki barna auðið en þau tóku kjörbarn, systurdóttur Þóru. Um miðjan nóvember 1918 lést litla stúlkan úr spænsku veikinni.  „Þetta hefur verið gríðarlega erfitt fyrir forsætisráðherrahjónin að standa í þessum erfiðu samningaviðræðum í þessari miklu sorg þegar dóttir þeirra fellur frá, hún deyr 14. nóvember og er jarðsett á Þorláksmessu, en kannski var það smá ljós í myrkrinu þegar mamma fæðist þarna fyrsta desember,“ Segir Sturla Arinbjarnarson, sonur Sigþrúðar. 

Í hans huga hefur hlutur forsætisráðherrahjónanna verið heldur rýr í sögubókunum. 

Klausturssamtölin hefðu verið eitur í hennar beinum

Sigþrúður sagði í viðtalinu við Morgunblaðið árið 1968 að þegar hún hugsaði til fæðingardags síns fyndist henni stundum að hún hefði átt að verða baráttumanneskja , það hefði hún hins vegar ekki orðið. Sonur hennar er ekki alveg sammála. Hann segir að hún hafi alltaf viljað að allir nytu sannmælis. „Þrátt fyrir að vera komin af betri borgurum landsins kom hún alltaf vel fram við alla alveg sama af hvaða stétt þeir voru og það sem skeði á Klausturbarnum núna hefði verið algerlega eitur í hennar beinum.“ Hún hafi verið jákvæð og félagslynd og alltaf sýnt öllum kurteisi og virðingu. 

Mynd með færslu
 Mynd:
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV