Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Helmingur viðbótarútgjalda í heilbrigðismál

15.12.2017 - 15:13
Mynd: Skjáskot / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að hún hefði gjarnan viljað að öll viðbótarútgjöld sem lögð eru til í fjárlagafrumvarpinu kæmu fram í heilbrigðiskerfinu. Ekki hafi þó verið lengra komist núna en breytinga sé að vænta þegar ríkisfjármálaáætlun verður lögð fram. Hún vonar að þá sjáist alvöru sóknarhugur til langrar framtíðar.

 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sagði í fréttum RÚV í gær að fjárlagafrumvarpið ylli vonbrigðum. Hann sagði það vera mat Landspítala að þurft hefði 1.800 milljóna króna viðbót bara til að halda því í gangi sem er nú þegar í rekstri. Niðurstaðan sé 1.200 milljónir.

„Hann lýsir því sannarlega yfir að hann myndi vilja sjá meira. Það myndi ég líka vilja sjá. Ég myndi vilja sjá meira fyrir allt heilbrigðiskerfið og auðvitað ekki síst Landspítalanna sem er algjört hjarta í íslensku heilbrigðiskerfi,“ segir Svandís í viðtali við Hauk Holm fréttamann. Hún segir að þær 600 milljónir sem forstjóri Landspítala segi vanta upp á sé innan við eitt prósent þess sem spítalinn hefur til rekstrar. „Þannig að munurinn er nú ekki gríðarlega mikill í þessu stóra samhengi. En ég er sammála Páli í því að við eigum að gefa í og gera ennþá betur í fjármálum heilbrigðiskerfisins í heild. Ég vonast til þess að þegar við sjáum ríkisfjármálaáætlun á næsta ári til þriggja ára þar sjáum við  alvöru sóknarhug til langrar framtíðar.“

Svandís segir að stjórnvöld og heilbrigðisstofnanir þurfi að einhenda sér í mönnunarmálin. Þau séu algjört lykilatriði til að halda uppi þjónustunni.

Hefði viljað fá alla viðbótina í heilbrigðismálin

„Það sem við gerðum núna var að við bættum fimmtán milljarða við það sem fyrirhugað var í fyrra frumvarpi. Átta af þeim eru í heilbrigðiskerfinu. Ég hefði helst viljað fá alla þessa fimmtán í heilbrigðisþjónustuna og helst meira til en það var í fleiri horn að líta í þessari lotu. Ég held áfram að taka slaginn fyrir heilbrigðiskerfið,“ segir Svandís.

Páll lýsti vonum um það í fréttum í gær að framlög til spítalans breyttust meðan frumvarpið er í meðförum þingsins. Svandís sagði að aðstæðurnar væru óvenjulegar, bæði ráðuneytið og þingið fengi skemmri tíma til að fara yfir frumvarpið en venjulega.

Efling um allt land

Svandís segir að áhersla verði lögð á að efla heilbrigðisþjónustuna um allt land. „Það er stórt byggðamál að heilbrigðisþjónustan sé nálægt fólki og að það sé jafnræði, ekki bara hvað varðar efnahag sem er mér mjög ofarlega í huga heldur ekki síður hvað varðar búsetu.“

Hún segist hafa skoðað að fella fleiri þætti undir greiðslukostnaðarþakið, til að mynda ferðakostnað þegar fólk þarf að fara langar leiðir til að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Svandís segist sjá fyrir sér heilbrigðiskerfi á Íslandi sem standist samanburð við það besta í heiminum. Hún gerir ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála fari vaxandi en segir að líka verði að huga að greiðsluþátttöku sjúklinga sem sé of mikil. „Við verðum að koma okkur saman um það sem samfélag hvað okkur finnst ásættanlegt að fólk greiði mikið úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu. Það er ekki ásættanlegt að mínu mati að það sé einn fimmti.“