Helmingur hefur þegið bætur frá Procar

30.06.2019 - 20:00
Mynd:  / 
Helmingur þeirra sem keypti bíl sem Bílaleigan Procar hafði breytt kílómetrastöðu í, hefur þegið bætur. Procar hefur alls boðið eigendum um 130 bíla bætur. Fólk fær fjórar vikur til að ákveða hvort það þiggi bæturnar sem boðnar eru eða ekki.

Procar leitaði til lögmannsstofunnar Draupnis. Gestur Gunnarsson lögmaður segir í samtali við fréttastofu að núverandi eigendur bíla, sem Procar seldi og kílómetrastöðu var breytt í, fái bréf með boði um bætur. Langflestir hafi nú fengið slíkt bréf.

Gestur vildi hvorki veita fréttastofu sjónvarpsviðtal né greina frá því hversu há heildarbótafjárhæðin er. Fólk hafi fengið tilboð og Draupnir líti svo á að um þau ríki gagnkvæmur trúnaður. Hvert og eitt tilboð gildir í fjórar vikur. Gestur segir að um helmingur hafi nú þegar þegið bætur og örfáir hafi látið lögmannsstofuna vita að þeir hafni bótatillögu. Hann segir að bótaferlið gangi ágætlega og það sjái fyrir endann á því. 

Fréttastofa hefur undir höndum eitt af þeim tilboðum sem voru send út. Viðkomandi óskaði eftir því að ekki yrði greint frá fjárhæðinni. Með tilboðinu fylgir útskýring á því hvernig bótafjárhæðin er fundin. Á þeim grunni bjó fréttastofa til sitt eigið dæmi.
 

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Þóra Löve - RÚV

Gefum okkur að Jóna Jónsdóttir hafi keypt Toyotu Corollu árgerð 2009 af Procar árið 2015. Við kaupin sýnir mælir í bílnum 100.000 kílómetra. En honum hefur verið breytt og rétt kílómetrastaða er 150.000 kílómetrar.

Özur Lárusson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, var fenginn til að verðmeta bílana og reikna út skaðabætur. Þetta er gert með tvennum hætti.

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Þóra Löve - RÚV

 

Annars vegar er tekið markaðsverð bílsins miðað við niðurfærðu kílómetrastöðuna, segjum að verð fyrir Corollu sem ekið hefur verið 100.000 kílómetra sé 900.000 krónur og drögum frá verðið þegar rétt kílómetrastaða hefur verið færð inn, sem við gefum okkur að sé 800.000 krónur. Mismunurinn er 100.000 krónur. 

Hins vegar er tekin kílómetraniðurfærslan, 50.000 kílómetrar og hún margfölduð með svokallaðri krónutölurefsingu - líkt og bílaumboð gera þegar þau taka notaða bíla upp í nýja. Özur gefur sér að refsingin sé 3 krónur fyrir bíla eldri en þriggja ára. Samanlagt eru þetta 150.000 krónur. 

Upphæðirnar tvær eru lagðar saman og deilt í með tveimur. Niðurstaðan er 125.000 krónur. 

Til viðbótar ákváðu Draupnir og Procar að greiða skyldi 40% álag og því fengi eigandi Corollunnar 175.000 krónur í bætur.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi