Helmingur allra flóttamanna eru börn

07.09.2016 - 01:50
epa05140163 Syrian refugee children stand outside their makeshift shelter at Qab Elias Syrian refugee camp in the Bekaa valley, eastern Lebanon, 02 February 2016. More than 40 thousand Syrian refugees consider Qab Elias camps their primary residence.
Börn í flóttamannabúðum í Bekaa dal í austurhluta Líbanon.  Mynd: EPA
Nærri 50 milljónir barna hafa þurft að yfirgefa heimili sín, ýmist vegna stríðsátaka eða í leit að betra og öruggara lífi af öðrum ástæðum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF um stöðu barna á flótta á heimsvísu.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að börn eru um helmingur allra flóttamanna í heiminum. 28 milljónir barna hafa þurft að flýja stríðsátök í heimalandi sínu. Um 45% þeirra fóru frá Sýrlandi og Afganistan. Tíu milljónir þessara barna eru með stöðu flóttamanna, ein milljón þeirra eru hælisleitendur og um 17 milljónir eru án heimilis í eigin landi. Þau börn þurfa hvað mest á mannúðar- og neyðaraðstoð að halda.

Æ fleiri börn flýja heimaland sitt ein síns liðs. Yfir 100 þúsund umkomulaus börn sóttu um hæli í 78 löndum í fyrra, þrefalt fleiri en árið áður. 

Um 20 milljónir barna hafa flúið heimili sín vegna annarra ástæðna. Mörg þeirra flýja mikla fátækt og ofbeldi glæpahópa. Þau eiga í mikilli hættu á að verða misnotuð eða hneppt í varðhald vegna skorts á skilríkjum. Lagaleg staða þessara barna er óljós og hvergi er fylgst með velferð þeirra.

Skýrslan verður lögð fram á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um flótta- og farandfólk 19. september ásamt aðgerðaráætlun UNICEF sem er í sex liðum. Unicef óskar eftir því að flótta- og farandbörn, sérstaklega þau sem ferðist ein, verði ekki höfð af féþúfu og verði vernduð frá ofbeldi. Í öðru lagi er óskað eftir því að hætt verði að hneppa flóttabörn í varðhald og boðið verði upp á hagnýtari lausnir fyrir þau. Þriðji liðurinn í aðgerðaráætlun UNICEF er að reyna að gera allt sem hægt er til þess að halda fjölskyldum saman. Þá er hamrað á mikilvægi þess að bjóða flótta- og farandbörnum upp á menntun og aðra þjónustu. Í fimmta lagi er þrýst á aðgerðir gegn undirliggjandi ástæðum þess að fólk flýr heimili sín. Í síðasta lagi eru stjórnvöld þeirra landa sem taka á móti flóttamönnum beðin um að sporna gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu.

AFP fréttaveitan hefur eftir Justin Forsyth, varaformanni UNICEF, að þó ráðstefnan dugi sennilega ekki til þess að leysa vandann sem steðjar að börnum á flótta, komi hún samt vonandi til þess að opna augu heimsins fyrir vandanum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Skjöl