Helmingi verslunar lokað vegna COVID-19

26.03.2020 - 05:57
Erlent · Belgía · COVID-19 · Holland · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Google - Google Maps
Aðeins helmingur fataverslunarinnar Zeeman í bænum Baarle-Nassau á landamærum Belgíu og Hollands er opinn viðskiptavinum. Ástæðan er sú að húsnæði verslunarinnar er bæði í Hollandi og Belgíu, og vegna mismunandi reglna í löndunum af völdum kórónaveirufaraldursins er málum þannig háttað.

Viðskiptavinir geta ekki skoðað eða mátað fötin sem eru Belgíu-megin í versluninni, en Hollandsmegin er allt falt. Belgíska stjórnin fyrirskipaði lokun allra verslana sem ekki eru nauðsynlegar, en í Hollandi er aðeins samkomubann og krafa um að fólk haldi sig í ákveðinni fjarlægð hvert frá öðru. 

Borði hefur verið lagður fyrir Belgíu-hluta hússins svo viðskiptavinir brjóti engar reglur þegar þeir koma inn í verslunina. Guardian hefur eftir talsmanni verslunarkeðjunnar að söluhæstu vörur hennar, á borð við barnaföt, séu í Hollands-hluta búðarinnar. Karlmenn sem vilja máta skyrtur áður en þeir kaupa þær geta það hins vegar ekki, þar sem þær eru í Belgíu. Þeir sem treysta sér til að kaupa föt sem eru Belgíu-megin án þess að máta þau getra þó enn gert sín viðskipti á vefsíðu Zeeman. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi