Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Helmingi meira landað í Þorlákshöfn

03.03.2016 - 15:55
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Christopher Lund - Hafnarstjórn Þorlákshöfn
Tæplega 3300 tonnum af fiski var landað í Þorlákshöfn fyrstu tvo mánuði ársins, það er meira en tvöfalt meira en var í fyrra. Hafnarfrettir.is greina frá þessu og byggja á bráðabirgðatölum Fiskistofu. Auðbjargarbátarnir Arnar og Ársæll lönduðu tæpum fimmtungi þessa afla, en þeim verður lagt í vor. Þinganes, nýrra og stærra skip, tekur þá við hlutverki þeirra.

Skinney-Þinganes keypti öll hlutabréf í Auðbjörgu upp úr áramótum og bauð áhöfnum Arnars og Ársæls skipsrúm á Þinganesinu. Fyrirtækið ætlar að leggja áherslu á að veiða og vinna þorsk í Þorlákshöfn, en humarvinnsla verður á Höfn í Hornafirði. Hafnarfrettir.is greina frá því að aukning frá í fyrra á lönduðum afla fyrstu tvo mánuði ársins í Þorlákshöfn sé 230%. Þar hafi verið landað 3274 tonnum nú, en 1438 í fyrra. Nokkrir bátar í Þorlákshöfn hafi fyrstu tvo mánuði ársins verið á meðal aflahæstu báta á landinu. Arnar hafi verið fjórði aflahæsti dragnótabáturinn með tæp 220 tonn. Ársæll hafi verið fjórði aflahæstur netabáta með tæp 320 tonn og Friðrik Sigurðsson fimmti með rúm 280 tonn. 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV