Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Helmingi færri ferðamenn á tjaldstæðum

29.06.2017 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: tjalda.is - RÚV
Helmingi færri ferðamenn eru á tjaldstæðum á Norðurlandi heldur en á sama tíma í fyrra. Júníveðrið hefur leikið Norðlendinga heldur grátt í sumar, en fækkun ferðamanna á svæðunum er líka áberandi. Helmingi færri eru nú á tjaldstæðum á Akureyri heldur en í júní í fyrra. 

Fækkun ferðamanna á Norðurlandi hefur töluvert verið til umræðu. Ferðaþjónustufólk við Mývatn hefur til að mynda sagt við RÚV að þeir ferðamenn sem þó koma, leyfi sér minna og skilji sífellt minna eftir sig. Þeir séu mikið á litlum húsbílum, eldi sjálfir og gisti jafnvel í bílunum. Og fækkun á tjaldsvæðum er ein birtingarmynd þess. 

Spyrja ekki lengur um afþreyingu eða gistingu

Sigfús Illugason, framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins Bjargs við Mývatn, segir aðsóknin mun slakari heldur en undanfarin ár. 

„Það sem er mest áberandi er að það er varla spurt um afþreyingu lengur eða gistingu í herbergjum,” segir hann. „Bara eiginlega ekkert. Það er allt öðruvísi en hefur verið, alveg nýtt mynstur.” 

Sigfús undirstrikar að júní hafi verið erfiður veðurlega séð og tjaldsvæðin séu viðkvæmust fyrir veðrabreytingum.

„Búið að vera ofsalega dapurt”

Halldór Gunnlaugsson, sem rekur Tjalda í Skagafirði, hefur svipaða sögu að segja. Tjalda rekur tjaldstæði á Hofsósi, Hólum, Varmahlíð og Sauðárkróki.  

„Það hefur verið dræm aðsókn miðað við undanfarin ár. Búið að vera ofsalega dapurt,” segir hann. „Maí byrjaði ágætlega en eftir að það kólnaði þá hálf dó aðsóknin.” Halldór segir mjög lítið um Íslendinga á svæðunum, nema aðeins um helgar. 

50 prósenta samdráttur milli ára

Tryggvi Marinosson, framkvæmdastjóri tjaldstæðanna á Akureyri, í Kjarnaskógi og við Þórunnarstræti, segir að í ár sé um 50 prósenta samdráttur frá því í fyrra. 

„Þetta er mikil fækkun,” segir hann. „Maí var metmánuður, en í júní var samdráttur bæði í innlendum og erlendum ferðamönnum.”

Tryggvi bendir þó á að stærsti ferðamánuðurinn, júlí, er rétt handan við hornið og veðrið spili einnig mikið inn í. 

„Túristarnir koma ekki mikið í Vaglaskóg”

Rúnar Ísleifsson, skógarvörður í Vaglaskógi, segir sumarið hafa verið frekar rólegt, enda ráðist það mjög af veðrinu. „Það var mjög góður júní í fyrra, en umferðin núna hefur verið um 60 prósent af því sem var þá,” segir hann. Uppistaðan séu íslenskir ferðamenn. „Erlendu túristarnir koma ekki mikið í Vaglaskóg.”

Forsvarsmenn tjaldstæðanna á Húsavík og í Ásbyrgi voru nokkuð ánægðir með fjölda ferðamanna, en höfðu ekki samanburð frá því í fyrra.