Hellirigning veldur flóðum, kæfir elda og kætir Ástrala

epa08199297 Water overflows the banks of the Parramatta River after heavy rains in Sydney, New South Wales (NSW), Australia, 07 February 2020. Heavy rain is drenching large swathes of eastern NSW, forcing road closures and sparking concerns about the risk of flash flooding.  EPA-EFE/BIANCA DE MARCHI AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Parramatta-áin, sem rennur í gegnum Sydney, flæddi yfir bakka sína í gær Mynd: EPA-EFE - AAP
Eftir margra mánaða mannskæðar hamfarir vegna þurrka og gróðurelda vofa nú úrhelli og flóð yfir ástralska ríkinu Nýja Suður-Wales og íbúum þess. Gærdagurinn var sá úrkomusamasti í Sydney til rúmlega árs. Fjöldi gatna varð þar ófær vegna flóða. Svipaða sögu er að segja af fleiri bæjum við austurströndina og Veðurstofa Ástralíu spáir áframhaldandi vatnsveðri.

Jarðvegur er víða svo þéttur og ógagndræpur eftir langvarandi þurrka og elda að vatnið nær ekki að sitra niður heldur flæðir yfir allt sem fyrir verður. Veðurstofan varar við „hættulegum aðstæðum“ í dag og á morgun vegna rigninganna og bið gæti orðið á uppstyttu eitthvað fram í næstu viku.

Óveðrinu fagnað því eldarnir slokkna eða minnka

Þótt ofsaregnið valdi miklum usla gerir það líka mikið gagn því mjög hefur sljákkað í öllum gróðureldum í Nýja Suður Wales. Um þriðjungur þeirra hefur slokknað og enginn þeirra 43 sem enn loga brennur svo heitt eða víða að það kalli á hæsta viðbúnaðarstig.

Norðar í álfunni, í Queensland, eru veðurviðvaranir líka í gildi um helgina. Þar er spáð þrumuveðri og „úrhellisrigningu sem gæti leitt til asaflóða.“ Í Vestur-Ástralíu er svipað uppi á teningunum. Þar mun hitabeltisstormur hamast á strandhéruðum í dag með helliregni og hávaðaroki.

Óveðrinu er þó alstaðar fagnað eftir það sem á undan er gengið. Vel á annað hundrað þúsund ferkílómetra gróðurlendis hafa orðið eldum að bráð í Ástralíu síðan í september. 33 manneskjur hafa látið lífið í eldunum eða vegna þeirra og áætlað er að allt að milljarður dýra, stórra og smárra, hafi drepist í hamförunum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi