Helgi tekinn við Eyjamönnum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Helgi tekinn við Eyjamönnum

01.10.2019 - 17:50
Helgi Sigurðsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í fótbolta sem féll í haust úr efstu deild karla. Helgi var kynntur til sögunnar á fréttamannafundi í Vestmannaeyjum í dag og skrifaði hann undir samning til þriggja ára.

ÍBV átti afleitt sumar þar sem félagið fékk aðeins tíu stig og var 17 stigum frá öruggu sæti í efstu deild að ári. Liðið féll því í næst efstu deild ásamt Grindavík sem fékk tvöfalt fleiri stig en ÍBV í deildinni.

Hinn 45 ára gamli Helgi þjálfaði lið Fylkis og stýrði þeim í áttunda sæti sömu deildar í sumar þar sem liðið fékk 28 stig. Helgi hefur þjálfað Fylki undanfarin þrjú ár og byrjaði hann sinn feril þar á því að stýra liðinu til sigurs í næst efstu deild sumarið 2017. Síðustu tvö tímabil lenti liðið í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar sem þótti ekki nógu gott og var því ákveðið að framlengja ekki samning Helga í Árbænum.

Hann hefur nú tekið við ÍBV til næstu þriggja ára og freistar þess að koma liðinu í deild þeirra bestu á ný.