„Held mér hafi aldrei liðið jafn kynþokkafullri“

Mynd: RÚV / RÚV

„Held mér hafi aldrei liðið jafn kynþokkafullri“

03.01.2020 - 13:02

Höfundar

Nanna Kristín Magnúsdóttir er með nýja íslenska dans- og söngvamynd í bígerð. Hún á mjög gjöfult ár að baki eftir að hafa skrifað, leikstýrt og leikið í Pabbahelgum en hún segir að íslenskar konur í kvikmyndagerð og Ole Gunnar Solskjær þjálfari Manchester United standi upp úr á árinu sem var að líða.

Það fylgdust margir með sigrum og skakkaföllum Karenar í Pabbahelgum en þættirnir voru tvímælalaust meðal sigurvegara íslenska sjónvarpsársins 2019 enda hlutu þeir bæði mikið lof og umtal. Nanna Kristín er skapari þáttanna en hún skrifaði, leikstýrði og lék aðalhlutverkið í grátbroslegu, raunsæju skilnaðardrama sem varpaði óvæntu ljósi á reynsluheim kvenna og íslenskan veruleika. Nanna Kristín Magnúsdóttir var gestur Lovísu Rutar Kristjánsdóttur og Atla Fannars Bjarkasonar í spjallþætti á Rás 2 á gamlársdag þar sem hún talaði um það sem stóð upp úr hjá henni árið 2019, það sem er fram undan á nýju ári og Pabbahelga-æðið sem greip landsmenn á liðnu ári. „Það tók mig sjö ár að þróa þetta og þetta var mjög persónulegt,“ segir Nanna Kristín en þættirnir vöktu ekki síst athygli fyrir hipsurslausa framsetningu á efnistökum og myndefni þar sem öllu var blygðunarlaust tjaldað til með tilheyrandi líkamsvessum, appelsínuhúð, ólifnaði og tilvistarkrísum. „Þegar ég byrjaði að skrifa var ég alltaf að reyna að vera fyndin. Ég las mér til um að það þyrftu alltaf að vera þrír brandarar á hverri síðu en ég var ekki góð í því svo ég byrjaði að skrifa það sem mér fannst sjálfri fyndið, það sem mér fannst pínlegt og að láta allt flakka. Þá byrjaði þetta virkilega að vera áhugavert,“ segir hún kímin.

Fannst hún vera Beyoncé

Á meðan þættirnir voru í sýningu var Nanna Kristín gjarnan stoppuð úti á götu af ókunnugum konum sem sjálfar voru að ganga í gegnum svipaða lífsreynslu og Karen í þáttunum en líka konum sem þökkuðu henni fyrir að sýna kvenlíkamann á svo raunsannan hátt. „Ég held mér hafi aldrei liðið jafn kynþokkafullri og á meðan þættirnir voru sýndir. Það voru allir að þakka mér fyrir og segja: Takk fyrir að leyfa öllu að dingla þarna og vera í þessum fellingum. Mér fannst ég bara vera Beyoncé,“ segir hún sposk. „Mér finnst ég ekkert eitthvað æðislegt í sundbol en þegar ég er á strætóskýlum og allir að hrósa mér þá líður mér rosalega flottri. Ég er ekki öruggari með mig en það.“

Dramatískt ár hjá Ole Gunnar Solskjær

Það stendur ekki á svörum þegar hún er spurð að því hvað stóð upp úr árið 2019. Hún er einlægur aðdáandi fótboltaliðs Manchester United sem á sannarlega strembið ár að baki. Hún hefur þó enn trú á þjálfara liðsins og segist ánægð með hann. „Ole Gunnar Solskjær. Hann átti rosalega dramatískt ár en það er mjög gott því leiðin liggur núna aðeins upp á við,“ segir hún en bætir því við að frammistaða kvenna í íslenskri kvikmyndagerð standi einnig upp úr á liðnu ári. „Agnes Joy eftir Silju Hauks var vinsælasta íslenska kvikmynd ársins og svo eru konur að fá tilnefningar hér og þar. Áhorfendur vilja sjá þær sögur sem konur segja.“

Ekki fjármagn fyrir framhaldi Pabbahelga

Stóra spurningin sem margir aðdáendur Pabbahelga hafa spurt sig og Nönnu Kristínu sjálfa síðan síðasti þátturinn var sýndur er hvort von sé á framhaldi á ævintýrum Karenar sem mörgum landsmönnum þótti erfitt að þurfa að kveðja. Nanna viðurkennir að hún geti einungis svarað því fyrir víst að það verði að minnsta kosti ekki strax á næsta ári. „Ég veit það því það er ekki fjármagn hjá Kvikmyndasjóði. Svo eru svo mörg önnur verkefni í gangi þar að maður þarf að fara í röðina,“ segir hún.

Auglýsir eftir börnum í dans- og söngvamynd

Árið 2020 verður þó án efa stórt ár fyrir Nönnu Kristínu en í haust verður frumsýnd á RÚV ný sjónvarpssería sem nefnist Ráðherrann en Nanna Kristín er annar leikstjóri þáttanna. Þar verða Ólafur Darri og Aníta Briem í aðalhlutverkum þar sem Ólafur Darri leikur forsætisráðherra sem glímir við geðhvörf. Nanna er spennt að deila afrakstrinum með þjóðinni en hún leikstýrir þáttunum ásamt Arnóri Pálma Arnórssyni. En það er fleira á döfinni hjá Nönnu. „Ég er reyndar að fara að gera dans- og söngvamynd á árinu,“ segir hún leyndardómsfull. „Maður er alltaf að halda öllu að sér og ég veit ekki hvenær þetta verður eða með fjármagn eða neitt en það verða aðallega börn í stærstu hlutverkunum. Á fyrstu mánuðum ársins fer maður að auglýsa eftir börnum.“

Rætt var við Nönnu Kristínu Magnúsdóttur, Sólborgu Guðbrandsdóttur og Braga Valdimarsson í þættinum Á síðustu stundu sem var á dagskrá Rásar 2 á gamlársdag og má hlýða á allan þáttinn hér.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Nanna Kristín tilnefnd til norrænna verðlauna

Sjónvarp

Sér ekkert fyndið við eigin skilnað