Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heita 20 milljónum evra í að stöðva skógarelda

26.08.2019 - 21:00
Mynd: EPA-EFE / REUTERS POOL
Leiðtogar sjö helstu iðnríkja heims hafa heitið tuttugu milljónum evra, tæplega tveimur komma átta milljörðum króna, í aðstoð við að slökkva skógarelda í Amazon. Umhverfismál, og þá sérstaklega skógareldarnir í Amazon, voru eitt helsta umræðuefnið á lokadegi G7-ráðstefnunnar í Frakklandi í dag.

Emmanuel Macron forseti Frakklands tilkynnti í morgun að ríkin ætli að leggja 20 milljónir evra, jafnvirði um þriggja milljarða króna, í baráttuna gegn skógareldunum. Mestum hluta fjárins yrði varið í að senda flugvélar til að hjálpa til við slökkvistarfið. 

Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur sagði í fréttum að fundi hefði ekki lokið með sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoganna í þetta sinn, ólíkt því sem hefur verið. Hún sagði að í þetta sinn hefði fundi verið lokið með einblöðungi þar sem leiðtogarnir taka undir ákveðin mál svo sem viðskiptamál og stöðu mála í Líbíu, Íran, Úkraínu og Hong Kong. Hins vegar hafi verið lagt upp með að ræða ójöfnuð og stöðu kvenna, til dæmis á vinnumarkaði, í aðdraganda fundarins. Dagskráin hafi svo færst til.  

Þá héldu ráðamennirnir áfram að ræða leiðir til að draga úr spennu við Persaflóa á fundinum, en í gær mætti íranski utanríkisráðherrann, Mohammad Javad Zarif, óvænt á svæðið. Í lokayfirlýsingu G7 fundarins segir að vilji stilla til friðar við Persaflóa. Þá vilji þau ekki að Íran búi yfir kjarnorkuvopnum, sagði Silja. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ræddi í dag einslega við leiðtoga Ástralíu, Egyptalands, Japans og Ítalíu. Hann hefur nýtt fund G7-ríkjanna meðal annars til að ræða yfirvofandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.