Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Heimurinn er reiður og í algjöru rugli“

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór um víðan völl í fyrsta sjónvarpsviðtali sínu eftir að hann tók við embætti. Hann stóð fastur á því að umfangsmikið kosningasvindl hefði leitt til þess að Hillary Clinton, mótframbjóðandi hans, fékk fleiri atkvæði. Og sagðist ekki hafa áhyggjur af því að hert innflytjendalöggjöf myndi leiða til meiri reiði hjá múslimum. „Heimurinn er eins reiður og hann getur orðið.“

Á vef Washington Post má nálgast uppskrifað viðtal við Trump sem David Muir, fréttamaður ABC , tók og birt var í gærkvöld. Viðtalið hefur vakið mikla athygli. 

Þar ítrekaði Trump þá skoðun sína að aldrei hefðu jafn margir verið viðstaddir embættistöku Bandaríkjaforseta - fullyrðingu sem fjölmiðlar vestanhafs hafa kallað lygi og telja sig hafa hrakið hana með loftmyndum. 

Trump ræddi einnig um múrinn sem hann ætlar að reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. „Við ætlum að hefjast handa á næstu mánuðum og undirbúningur er þegar hafinn,“ segir Trump. Hann vísaði því einnig á bug að hann væri að svíkja kosningaloforð um að Mexíkó myndi borga fyrir múrinn. Bandaríkin myndu fyrst borga en síðan yrði Mexíkó rukkað.  „Ég hef aldrei sagt að Mexíkó myndi borga strax fyrir múrinn. Ég sagði eingöngu að Mexíkó myndi á einum eða öðrum tímapunkti borga.“

Trump ítrekaði einnig þá staðhæfingu að kosningasvindl hefði orðið til þess að Hillary Clinton fékk fleiri atkvæði en hann. Og sagðist sannfærður um að hann hefði fengið fleiri atkvæði en Clinton ef hann hefði hagað kosningabaráttu sinni þannig. Hann sagði að þetta yrði rannsakað í þaula. „Og ég fullyrði að ekkert af þessum atkvæðum fóru til mín. Þau fóru öll í hina áttina.“ Enginn gögn hafa verið lögð fram um þetta kosningasvindl.

Muir spurði Trump einnig um tilskipun þar sem kveðið verður á um bann við innflytjendum frá vissum löndum. Trump vísar því á bug í viðtalinu að þetta væri bann við komu múslima til Bandaríkjanna - því verði beint að löndum þar sem hryðjuverkasamstarfsemi þrífist „Við erum að horfa upp á fólk sem kemur til landsins með illt í huga. Ég vil það ekki. Þetta er ISIS. Það kemur til landsins undir fölsku flaggi.“

Muir innti þá Trump eftir því hvort hann óttaðist ekki að þetta leiddi til enn meiri reiði hjá múslimum: „Það er nóg af reiði núna. Hvernig er hægt að hafa meiri reiði. Ég meina, David, þú ert skynsamur maður. Heimurinn er í algjöru rugli - heimurinn er eins reiður og hann getur orðið. Og hvað? Heldur að þetta eigi eftir að valda meiri reiði? Heimurinn er reiður staður. Allt þetta hefur þegar gerst. Við fórum inn í Írak. Við hefðum ekki átt að fara þangað inn. Og við hefðum ekki átt að fara eins og við fórum. Heimurinn er í algjör rugli. Sjáðu hvað er að gerast í Aleppo. Hvað er að gerast í Mosul? Hvað er að gerast í Mið-Austurlöndum? Og fólk er á flótta og það er koma yfir til Evrópu og út um allt. Heimurinn er í algjöru rugli, David.“ 

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV