
Kaffiverð í verslunum hér á landi hefur hækkað að meðaltali um 14,5% á tveimur árum. Á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á Robusta-kaffibaunum lækkað um 15,1%. Þær eru notaðar í framleiðslu á um 40% prósentum af öllu kaffi í heiminum. Þetta kemur fram í gögnum Hagstofunnar sem Neytendasamtökin hafa tekið til sérstakrar athugunar.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að samtökin gefi sér að aðrar kaffibaunir hafi lækkað álíka mikið og Robusta-baunirnar. Samtökin hafi ítrekað bent á hversu hægt lækkun á heimsmarkaðsverði skili sér í verðlagi hérlendis. Sé þróunin hins vegar í hina áttina, að heimsmarkaðsverð hækki, sé hækkunin hins vegar fljót að skila sér til íslenskra neytenda. Samtökin kalla eftir því að lækkun á heimsmarkaðsverði skili sér á sama hátt til íslenskra neytenda og hækkanir.
Neytendasamtökin velta því fyrir sér hvers vegna kaffiverð þróist ekki í samræmi við heimsmarkaðsverð og þróun gengis og spyrja: hvað er með þetta kaffiverð?