Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimsþekkt tónlistarfólk með tónleika í gegnum netið

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett

Heimsþekkt tónlistarfólk með tónleika í gegnum netið

19.03.2020 - 08:16

Höfundar

Eftir því sem COVID-19 faraldurinn geisar um veröldina hefur tónlistarfólk þurft að aflýsa nánast öllum tónleikum sem voru á döfinni. Til að halda tengingu við aðdáendur hafa margir brugðið á það ráð að streyma tónleikum í gegnum netið. Á meðal listafólks sem hefur tekið upp á því að streyma tónleikum má nefna Christ Martin, söngvara Coldplay, Patti Smith og Diplo.

Milljónir aðdáenda sitja nú eftir með sárt ennið eftir að nánast öllum tónleikum hefur verið aflýst eða frestað, enda margir eflaust búnir að bíða lengi eftir að sjá sitt uppáhalds tónlistarfólk koma fram. Til að bregðast við kalli aðdáenda hefur því þónokkur fjöldi tekið upp á því að halda eins konar einkatónleika, oft bara úr stofunni heima hjá sér eða í hljóðveri, og streyma svo til aðdáenda út um allan heim

Söngvari hljómsveitarinnar Coldplay, Chris Martin, hóf beina útsendingu á Instagram og tilkynnti þar aðdáendum sínum að hann væri nú einn heima hjá sér í stað þess að vera með félögum sínum í Coldplay. Þeir ættu að vera allir saman en sökum farbannsins eru þeir nú fastir á víð og dreif um heiminn. Þar sem hann gat ekki verið með þeim að spila tónlist ákvað hann að spjalla við aðdáendur sína í gegnum miðilinn og spila nokkur óskalög á píanó.

Rokkstjarnan Patti Smith neyddist til að hætta við fyrirhugaða tónleikaferð um Ástralíu. Hún fór því á Instagram hjá Jesse dóttir sinni og ávarpaði aðdáendur sína þar. Hún tók fram hvað sér þætti leiðinlegt að geta ekki heimsótt landið og sendi kveðjur sínar til íbúa. Hún tók jafnframt fram hversu fallegt það væri að geta tengst aðdáendum út um allan heim í gegnum Instagram. Að lokum tók hún nokkur lög þar sem dóttir hennar spilaði undir á píanó. 

Plötusnúðurinn Diplo, sem hefur meðal annars komið fram á Sónar hátíðinni í Hörpu, tilkynnti sínum aðdáendum að hann ætli að streyma tónleikum sínum öll kvöld á meðan að hann er í sjálfskipaðri sóttkví. Hann ákvað sjálfur að fara í sóttkví þar sem hann hefur umgengist mörg hundruð manns á síðustu dögum og vill hann ekki stofna nánum vinum og ættingjum sem tilheyra áhættuhópum í hættu. Diplo átti að vera á tónleikaferð um þessar mundir en heldur þess í stað tónleika í stofunni heima hjá sér. 

Tónlistarmaðurinn Yungblud fer svo nýjar leiðir en hann ákvað að streyma tónleikum sem hann hélt fyrir tómum sal, en þar kemur hann fram ásamt hljómsveit. Hann bíður upp á þá nýbreytni að brjóta tónleikana upp annað slagið og spila innslög með rapparanum Machine Gun Kelly og leikkonunni Belle Thorne. Við þetta tilefni sagði Yungblud að búið væri að hætta við eða fresta nær öllum tónleikum hans á næstunni og hann saknaði aðdáenda sinna og þess krafts sem verður til á tóneikum hans. Hann ákvað því að nýta YouTube til að vera í sambandi við aðdáendur sína og fá útrás á á tónleikum.

Franska tónlistarkonan Christine & the Queens hefur streymt tónleikum úr hljóðverinu sínu á meðan að farbann stendur yfir í Frakklandi. Tónleikarnir eru hennar leið til að rjúfa þá einangrun sem aðdáendur hennar glíma nú við. 

Listinn yfir tónlistarfólk sem hefur streymt slíkum tónleikum síðustu daga er nær endalaust, það má til dæmis nefna kántrístjörnuna Keith Urban sem streymdi tónleikum þar sem eiginkona hans, Nicole Kidman, var ein í salnum.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fimm fjölbreyttar myndir í sóttkví

Klassísk tónlist

Heimsendingar frá Sinfó í samkomubanni

Tónlist

Úr sóttkví á stórtónleika með einum músarsmelli

Tónlist

Gavin DeGraw með tónleika á Íslandi í ágúst