Íranir eiga 22 staði eða fyrirbæri á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) en á þeim lista eru staðir sem hafa menningar, sögu- eða vísindalegt mikilvægi og eiga að njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum samningum. Þeir staðir eru álitinir mikilvægir fyrir sameiginlegt minni mannkyns og framtíðarvist þess á jörðinni.
„Þessir 22 staðir eru bara toppurinn á ísjakanum,“ segir Ragnheiður Gyða. „Þar fyrir utan er þetta ekki bara írönsk menningararfleifð, heldur menningararfleifð heimsins. Við eigum þetta, við erum mannkyn. Við erum ekki bara Íranir og Ameríkanar og Íslendingar. “ Rætt var við Ragnheiði í Víðsjá á Rás 1.
Íran er gríðarstórt og fjölmennt land. Það er ríflega 1.6 milljón ferkílómetra og íbúarnir rúmlega 82 milljónir, eða álíka margir og íbúar Þýskalands. Landið er staðsett þannig að það hefur haft menningarleg áhrif í allar áttir, til vesturs til Ítalíu, Balkansskagans og Grikklands, í norður til Rússlands og landa Austur-Evrópu, suður á Arabíuskaga og í austur til Indlands og Austur-Asíu. Þeir menningarstraumar eiga sér aldalanga sögu.
Hugmyndin um Persíu lifir
Ragnheiður Gyða segir að á meðan ungt fólk í Íran sé í dag jafnvel efins um ofurvald trúarinnar í landinu þá eigi hugmyndin um Persaveldi, með sína glæstu sögu, upp á pallborðið. „Persahugmyndin, sem hinn fallni hershöfðingi, Qasem Soleimani, þótti standa fyrir er sterkari í yngri kynslóðum og kannski eru æðstu valdamenn í Íran núna að nýta sér þetta.“
„Þarna er eiginlega allt menningarsögulegt,“ segir Ragnheiður Gyða þegar hún er beðin um að nefna nokkur dæmi um menningararfleifð landsins. Hún hefur ferðast um suðurhluta þessa mikla lands og þekkir vel til sögunnar á þessu landsvæði. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi sem hún tók í spjallinu og nokkuð af því sem hún sagði um upplifun sína.
Teheran