Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heimsminjaskráin aðeins toppur ísjaka

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Heimsminjaskráin aðeins toppur ísjaka

11.01.2020 - 09:08

Höfundar

„Mér fannst, þá sérstaklega í auðnunum og þegar ég sá til fjalla, að ég væri komin heim,“ segir Ragnheiður Gyða Jónsdóttir um þá tilfinningu að ferðast um Íran. Hún þekkir vel til sögu Mið-Austurlanda og Íraks og Írans en þar eru einhver elstu menningarsamfélög veraldar. Hótanir Bandaríkjaforseta um að ráðast á menningarlega mikilvæga staði í Íran vöktu mikla athygli í vikunni, þó svo að aðrir fulltrúar stjórnvalda þar vestra hafi dregið úr hótuninni. 

Íranir eiga 22 staði eða fyrirbæri á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) en á þeim lista eru staðir sem hafa menningar, sögu- eða vísindalegt mikilvægi og eiga að njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum samningum. Þeir staðir eru álitinir mikilvægir fyrir sameiginlegt minni mannkyns og framtíðarvist þess á jörðinni.

„Þessir 22 staðir eru bara toppurinn á ísjakanum,“ segir Ragnheiður Gyða. „Þar fyrir utan er þetta ekki bara írönsk menningararfleifð, heldur menningararfleifð heimsins. Við eigum þetta, við erum mannkyn. Við erum ekki bara Íranir og Ameríkanar og Íslendingar. “ Rætt var við Ragnheiði í Víðsjá á Rás 1.

Íran er gríðarstórt og fjölmennt land. Það er ríflega 1.6 milljón ferkílómetra og íbúarnir rúmlega 82 milljónir, eða álíka margir og íbúar Þýskalands. Landið er staðsett þannig að það hefur haft menningarleg áhrif í allar áttir, til vesturs til Ítalíu, Balkansskagans og Grikklands, í norður til Rússlands og landa Austur-Evrópu, suður á Arabíuskaga og í austur til Indlands og Austur-Asíu. Þeir menningarstraumar eiga sér aldalanga sögu. 

Hugmyndin um Persíu lifir

Ragnheiður Gyða segir að á meðan ungt fólk í Íran sé í dag jafnvel efins um ofurvald trúarinnar í landinu þá eigi hugmyndin um Persaveldi, með sína glæstu sögu, upp á pallborðið. „Persahugmyndin, sem hinn fallni hershöfðingi, Qasem Soleimani, þótti standa fyrir er sterkari í yngri kynslóðum og kannski eru æðstu valdamenn í Íran núna að nýta sér þetta.“
„Þarna er eiginlega allt menningarsögulegt,“ segir Ragnheiður Gyða þegar hún er beðin um að nefna nokkur dæmi um menningararfleifð landsins. Hún hefur ferðast um suðurhluta þessa mikla lands og þekkir vel til sögunnar á þessu landsvæði. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi sem hún tók í spjallinu og nokkuð af því sem hún sagði um upplifun sína. 

Teheran

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Golestan höllin í Teheran er glæst að innan og utan.
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Hallargarðurinn í Golestan höllinn

„Bara í höfuðborginni Teheran get ég nefnt Golestan höllina, listasafnið í borginni og nýlistasafnið og í raun bara borgina sjálfa sem þó er tiltölulega ung miðað við margar aðrar borgir landsins. Ég var alveg stórkostlega hissa þegar ég kom þangað. Ég hélt ég væri að fara til svona „trúarlands“ en nei, nei, þarna voru bara blikkandi neonljós, auglýsingar og allir í farsímunum sínum. Þetta er bara venjulegt fólk eins og við.“

Shiraz

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimeadia Commons
Nasir al-Mulk moskan í Shiraz er skiljanlega kölluð bleika moskan.

„Ég kom syðst til Shiraz sem er einhver elsta byggð í Íran og það má eiginlega segja að hún sé öll menningarminjar og allt umhverfi ægifagurt.“

Yazd

Caravanserai Zein-o-din, Nr. Yazd, Iran
 Mynd: Wikimedia Commons
Úlfaldalestar-miðstöð í Yazd.

„Í Yazd eru til dæmis eldhof þeirra sem aðhyllast Zaraþústra-sið. Þar er glæsileg úlfalestarmiðstöð sem verslunar- og viðskiptamenn notuðu á löngum ferðalögum sínum eftir Silkileiðinni milli austurs og vesturs.“

Zoroastrian Towers of Silence, Yazd, Iran
 Mynd: Wikimedia Commons
Einn af turnum þagnarinnar skammt frá Yazd.

„Skammt frá Yazd eru líka Turnar þagnarinnar þeirra sem aðhylltust þessi fornu trúarbrögð Zaraþústra. Þeir reistu turna fyrir látna og efst á turninum var líkið sett. Þá máttu gammar koma og nærast á holdinu en beinunum héldu eftirlifendur til haga. Ég minni á að Zaraþústra er sá sem taldi að maður hefði frjálsan vilja og gæti valið milli góðs og ills.“

Ishfahan

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Imam torgið í Ishfahan.
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ishfahan stendur við Lífsgjafarfljótið.
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Undir brúnum yfir Lífsgjafarfljótið eru fagarar og hljómmiklar hvelfingar.

„Ishfahan er dásamleg borg og ægifögur. Þar er Imam torgið, risastórt torg sem allt er glimrandi í bláum og grænum og gyltum og gulum litum. Yfir Lífsgjafarfljótið sem rennur um hana hafa verið reistar miklar brýr, sumar með miklum hvelfingum sem eru hljómfagrar og þangað koma tónlistarmenn og söngvarar til að flytja tónlist gestum og gangandi til gleði og ánægju.“

Persneskir garðar

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Víða um landið eru perneskir garðar sem eru sameiginlega á heimsminjaskrá Unesco.

„Alls staðar, í öllum þessum borgum, eru skrautgarðar, paradísir, í ótal lögum, bara ánægjunnar vegna til að ráða um og rabba. Í almenningsgarða kemur fólk og fjölskyldur á frídögum og um helgar til að grilla eða njóta útivistar. Þettar er menning líka.“

Pasargade

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Grafhýsi Kýrosar mikla er í Pasargade. Hann var fyrsti konungur Persaveldis.

„Þar sigraði Kýrós mikli, fyrsti konungur Persaveldis, afa sinn í orustu og lét setja þar höll og listigarða og þar er grafhýsi hans enn. Allt heimsminjar.“ 

Viðtalið við Ragnheiði Gyðu Jónsdóttur, úr Víðsjá á Rás 1, má heyra í heild sinni í glugganum efst á síðunni. 

 

Tengdar fréttir

Erlent

Donald Trump hótar stríðsglæpum

Erlent

Ræða vaxandi spennu í Miðausturlöndum

Stjórnmál

Tíst Trumps felur í sér lögbrot

Erlent

52 írönsk skotmörk í sigtinu