Heimsendingar Sinfóníuhljómsveitarinnar á RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: Sinfó

Heimsendingar Sinfóníuhljómsveitarinnar á RÚV

23.03.2020 - 13:43

Höfundar

Sökum samkomubanns hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands þurft að fresta eða aflýsa öllum viðburðum sem fyrirhugaðir voru á næstu vikum. Til að koma til móts við tónleikabannið hefur verið ákveðið að kynna nýjan dagskrárlið á RÚV sem nefnist Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands en þar gefst áhorfendum kostur á að upplifa tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands heima í stofu.

Hljóðfæraleikarar sveitarinnar hafa ekki látið samkomubannið stoppa spilagleðina og vakti það til að mynda mikla athygli þegar að hjónin og fiðluleikararnir Vera Panitch og Páll Palomares spiluðu á fiðlurnar fyrir tvíbura sína og settu myndband af því á Facebook-síðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þar má einnig finna myndbönd af horndeild sveitarinnar flytja útgáfu af Heyr, himna smiður og flautuleikaranum Áshildi Haraldsóttur í morgunsólinni.

Nú fá landsmenn að njóta hljóðfæraleiks Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á næstu fimmtudagskvöldum verður boðið upp á tónleikaupptökur með sveitinni á RÚV2 og á Rás 1. En fimmtudagskvöld eru hefðbundin tónleikakvöld Sinfónuhljómsveitar Íslands. Boðið verður upp á fjölbreyttar tónleikaupptökur og fyrstu tónleikarnir sem og áhorfendur og hlustendur fá að njóta eru tónleikar með Víkingi Heiðari Ólafssyni og Daníel Bjarnasyni sem teknir voru upp í nóvember í aðdraganda tónleikaferðar sveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis. 

Hjómsveitin tekur einnig þátt í lifandi tónlistarstreymi úr Eldborg í samvinnu við Hörpu og Íslensku óperuna undir yfirskriftinni Heima í Hörpu. Tónleikarnir verða flesta morgna kl. 11 á meðan samkomubann er í gildi í beinni útsendingu á RÚV.is og á RÚV 2 í sjónvarpinu. 

Upptökurnar verða á RÚV 2 í sjónvarpinu öll fimmtudagskvöld klukkan 19:30 í samkomubanni og þeim einnig útvarpað samtímis á Rás 1. Dagskrárliðurinn verður svo endursýndur á í sjónvarpinu á RÚV á sunnudögum kl. 15.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Heimsendingar frá Sinfó í samkomubanni

Klassísk tónlist

Sinfónían fagnar 70 ára afmæli í beinni útsendingu

Innlent

Hávaðinn hjá Sinfóníunni við sársaukamörk