Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Heimilt að guðlasta

02.07.2015 - 15:54
Kross með sólstafi í bakgrunni.
 Mynd: abcdz2000 - Freeimages
Guðlast er ekki lengur refsivert á Íslandi. Frá og með deginum í dag er fyllilega löglegt hér á landi að gera góðlátlegt grín að trúarbrögðum og trúarsannfæringu annarra.

Í dag samþykkti Alþingi að fella brott 125. gr. almennra hegningarlaga úr lögum. Í greininni kom fram að ekki mætti draga dár eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags. Samkvæmt greininni var refsivert að gera það og varðaði sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

„Þetta er því mikill gleðidagur fyrir bæði húmorista og alla vini tjáningarfrelsisins,“ segir á vef Pírata, en það voru einmitt Píratar sem lögðu fram frumvarp um þessar breytingar.

Frumvarpið var samþykkt með 43 atkvæðum og komu þingmenn Pírata í pontu hver á fætur öðrum, við atkvæðagreiðsluna, og sögðu "ég er Charlie Hebdo“.

Ennfremur segir á vef pírata: Frumvarp Pírata var lagt fram í kjölfar mannskæðrar árásar á ritstjórn tímaritsins Charlie Hebdo í París í vor, en útgáfan hefur gert stólpagrín að Múhamed Spámanni. Alþingi Íslendinga hefur nú komið þeim mikilvægu skilaboðum á framfæri að frelsið verði ekki beygt fyrir mannskæðum árásum.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV