Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimilislausum fjölgar og vandi eykst

11.09.2019 - 18:55
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Heimilislausum hefur fjölgað á þessu ári að mati verkefnastýru Frú Ragnheiðar hjá Rauða krossinum, sem sinnir heimilislausum og vímuefnaneytendum. Þá hefur ungu fólki sem nýtir þjónustuna fjölgað. 

Verkefnið Frú Ragnheiður, sem sett var á laggirnar af Rauða krossi Íslands fyrir tíu árum, býður skaðaminnkandi aðstoð í formi heilbrigðis- og nálaskiptiþjónustu. Bíll frú Ragnheiðar ekur um höfuðborgarsvæðið sex kvöld í viku. Aðsóknin í ár er svipuð og í fyrra; 3900 heimsóknir og 455 notendur.  

„Það sem við sjáum kannski öðru vísi núna í ár að það eru fleiri konur að leita til okkar og fleiri einstaklingar í yngsta aldurshópnum, 18 til 22 ára. Vandinn hjá þeim sem leita til okkar hefur aukist. Og það er aðallega vegna þess að meirihluti hópsins hefur verið mjög lengi heimilislaus. Og þegar að fólk er heimilislaust þá eykst allur þeirra vandi til muna þ.a. líkamleg heilsa þeirra og andlegt og geðrænt ástand hefur versnað mikið,“ segir Svala Jóhannesdóttir verkefnisstýra Frú Ragnheiðar. 

Er það tilfinningin þín núna að það séu fleiri heimilislausir heldur en í fyrra?

„Já, það er svona okkar tilfinning í Frú Ragnheiði að það séu fleiri að glíma við heimilisleysi í ár heldur en síðasta ár.“

Almenni leigumarkaðurinn sé erfiður og skortur sé á félagslegu húsnæði. Mestur er vandinn segir hún hjá yngsta fólkinu og því sem er í virkri neyslu. Svo þurfi hin sveitarfélögin að fara að huga að fólki í virkri neyslu á götunni. 

Eru nágrannasveitarfélög Reykjavíkur að draga lappirnar?

„Já, ég held að það sé hægt að segja það sem svo.“

Klukkan átta á Hard Rock stendur Minningarsjóður Lofts Gunnarssonar fyrir tónleikum þar sem fjöldi tónlistarmanna kemur fram. Loftur var útigangsmaður og hefði orðið fertugur í dag. Hann lést fyrir átta árum. Markmið sjóðsins er að bæta hag utangarðsfólks og berjast fyrir réttindum þeirra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV