Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heimildarmynd um manninn sem stal sjálfum sér

Mynd með færslu
 Mynd:

Heimildarmynd um manninn sem stal sjálfum sér

15.01.2019 - 15:14

Höfundar

Saga Hans Jónatans, þræls af danskri nýlendu sem við upphaf 19. aldar fluttist til Djúpavogs, hefur farið víða síðan bók Gísla Pálssonar um hann kom út árið 2014. Á morgun verður sýnd heimildarmynd sem byggð er á bókinni á RÚV.

Árið 1802 birtist á Djúpavogi ungur, þeldökkur maður sem settist þar að. Þessi maður hét Hans Jónatan og er eftir því sem best er vitað fyrsti þeldökki maðurinn sem settist að á Íslandi. Móðir Hans Jónatans var ambátt af afrískum uppruna á eyjunni Saint Croix sem þá var dönsk nýlenda en ekki er vitað með vissu um föður hans nema að hann var hvítur. Honum var tekið vel á Djúpavogi, fékk starf í versluninni í Löngubúð og varð síðar verslunarstjóri og giftist dóttur hreppstjórans.

Hans hafði verið þræll allt sitt líf en tókst að hefja nýtt líf á Íslandi. Afkomendur hans og Katrínar, eiginkonu hans, eru á tólfta hundraðið í dag. Þó Hans Jónatan hafi notið virðingar á Djúpavogi áttu afkomendur hans eftir að kynnast fordómum, eins og kom fram í sjónvarpsfréttum þegar myndin var frumsýnd í Berufirði vorið 2017.

Mynd:  / 
Rætt var við Bryndísi Kristjánsdóttur og Valdimar Leifsson um heimildarmynd byggða á ævi Hans Jónatans í Mannlega þættinum.

Höfundar heimildarmyndar um ævi Hans Jónatans, sem sýnd verður á á RÚV miðvikudaginn 16. janúar, eru hjónin Valdimar Leifsson og Bryndís Kristjánsdóttir. „Við kynntumst þessari sögu í gegnum Gísla Pálsson mannfræðiprófessor. Íslendingar hafa af og til verið minntir á að hann hafi komið hingað,“ segir Bryndís. „Það sem er merkilegt er að hann var fyrsti þeldökki maðurinn sem settist að á Íslandi svo vitað sé. Gísli hafði séð heimildarmynd í danska sjónvarpinu, þar sem fjallað var um að hann hefði komið til Íslands, og hún kveikti virkilega í honum. Svo hann fór að vinna að þessu mikla verki sínu. Þegar hann var kominn inn í verkið datt honum í hug að það gæti orðið skemmtilegt að gera heimildarmynd um þetta.“

Bryndís og Valdimar ferðuðust um slóðir Hans Jónatans, til Danmerkur og St. Croix, við gerð myndarinnar ásamt afkomendum hans. Með hlutverk í myndinni fara George Leite, Edda Björnsdóttir og Yiori Moorhead. 

Gísli Pálsson gaf út bókina Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér , árið 2014. Hún hefur verið þýdd á ensku, dönsku og frönsku. Svo gæti farið að lífshlaup Hans Jónatans verði einnig að leikinni kvikmynd, en greint var frá því á Morgunvakt Rásar 1 að bandarískir kvikmyndagerðarmenn veltu fyrir sér söguefninu

Tengdar fréttir

Innlent

Settu saman erfðamengi löngu látins manns

Bókmenntir

Erfðasýni gætu skýrt faðerni Hans Jónatans

Kvikmyndir

„Ég var kallaður svertingi“