Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Heimgreiðslur til foreldra í stað dagforeldra

10.11.2016 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Snæfellsbær hefur samþykkt að styrkja foreldra barna eftir að fæðingarorlofi lýkur með heimgreiðslum vegna skorts á dagvistunarúrræðum í bænum. Bæjarritarinn telur að  langtímalausnin hljóti að felast í lengingu fæðingarorlofs. 

Erfitt að starfa sem dagforeldri 

Í Snæfellsbæ starfa engir dagforeldrar. Tíminn frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til börn fá leikskólapláss getur því orðið foreldrum erfiður. Snæfellsbær býr þó betur en mörg sveitarfélög þar sem börn komast oft inn á leikskóla við tólf mánaða aldur. Lilja Ólafardóttir, bæjarritari Snæfellsbæjar, segir að frá árinu 2012, þegar mikil fjölgun barna varð,  hafi eftirspurn eftir dagforeldrum minnkað og að bærinn hafi reynt til þrautar að fá fólk til að gerast dagforeldrar: „Það gekk í einhvern tíma en síðan hefur enginn sýnt eða haft áhuga á því að gerast dagforeldrar hérna.“ Þá sé erfitt að vera dagforeldri vegna þess hve barnafjöldinn sveiflast. „Stundum eru bara ekki fjárhagslegar forsendur til að vera dagmóðir hér,“ segir Lilja.

Heimgreiðslur að formdæmi annarra sveitarfélaga

Snæfellsbær hefur nú samþykkt svokallaðar heimgreiðslur til foreldra að fordæmi annarra sveitarfélaga í svipaðri stöðu. Þá greiðir sveitarfélagið þá upphæð beint til foreldra sem sveitarfélagið myndi annars greiða til dagforeldris, um 40 þúsund krónur á mánuði. Allt er betra en ekkert, segir Lilja. Hún segir nýsettar reglur um heimgreiðslur sveitarfélagsins ekki vera skammtímalausn þótt önnur lausn væri óskandi: „Ég held að eina lausnin til langs tíma hljóti að vera lenging á fæðingarorlofi. Til að gera foreldrum kleift að vera hjá börnunum sínum þegar engin vistunarúrræði eru í boði.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður