Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Heildarmyndin var orðin óvinnandi“

27.11.2019 - 16:10
Mynd: RÚV / RÚV
„Ég fór að taka stikkprufu á sjálfan mig þegar það fór að nálgast tveggja ára afmæli stjórnarmyndunarinnar. Þetta er afurð þeirrar sjálfskoðunar,“ segir Andrés Ingi Jónsson sem sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í dag og tilkynnti að hann kæmi til með að starfa utan flokka út kjörtímabilið.

Spurður um hvort hann hyggist gangi til liðs við stjórnarandstöðuna segist hann ætla að taka afstöðu til mála á málefnalegum grunni. „Mér finnst þessi skipting á stjórn og stjórnarandstöðu ekki alltaf vera gagnleg.“

Leið „mjög illa“ vegna frumvarps um útlendingamál

Andrés segir að upp hafi safnast mál sem leiddu til þessarar ákvörðunar. „Þetta er safn þeirra málamiðlana sem samstarfið byggir á. Það var farið að verða að aðeins of myndarlegum haug til að mér liði vel með það,“ segir hann í samtali við fréttastofu. 

„Það er kannski erfitt að tína eitthvað sérstakt til. Það má til að mynda nefna frumvarp um útlendingamál sem var lagt fram í vor sem hefði þrengt mjög réttindi hælisleitenda sem mér tókst ekki að sannfæra félaga mína í flokknum um að senda til baka upp í ráðuneyti. Mér leið mjög illa með það,“ segir Andrés.

Segir ekki nægilega skýrt hvað Vinstri græn fengu í gegn í stjórnarsáttmálanum

Þá segir hann að heildarmyndin hafi verið orðin óvinnandi. Staða flokksins gagnvart samstarfsflokkunum hafi alltaf verið mjög erfið. „Það er náttúrulega það sem ég gagnrýni upprunalega við samstarfsyfirlýsinguna, að mér þótti ekki nægilega skýrt hvað það væri akkúrat sem Vinstri græn hefðu fengið í gegn af stórum sigrum og eftir því sem frá líður finnst mér það skína betur í gegn,“ segir hann.

„Við gáfum þessu séns í tvö ár en nú er bara niðurstaðan sú að ég tel mig ekki geta komist lengra,“ segir Andrés. 

Andrés Ingi og Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafa verið í þingflokki Vinstri grænna en hafa þó ekki stutt stjórnarsáttmála VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Andrés segist hafa rætt við Rósu áður en hann tók endanlega ákvörðun. „Ég talaði við hana áður en ég tók endanlega ákvörðun en tek ákvörðunina bara fyrir sjálfan mig. Þetta eru mín persónulegu þolmörk sem var komið að,“ segir hann.

„Ég held að núna verði ég svona frjálsari til að standa fyrir þeim hugsjónum sem ég var kosinn inn á þing fyrir, hugsjónir sem mér finnst stjórnarsamstarfið gera þingflokki VG erfitt fyrir,“ segir Andrés.