Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Heilbrigðiskerfið féll niður um flokk

15.06.2015 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Ég held að vissulega hafi heilbrigðisþjónustan farið tímabundið niður um flokk, seinni part vetrar þegar við höfum ekki getað sinnt öðru en bráðatilfellum og alveikasta fólkinu. Nú er markmiðið það að koma okkur aftur upp um flokk, á réttan stað," segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Páll var gestur í Kastljósi í kvöld. Hann sagði að það tæki nokkurn tíma að ná upp því sem hefði tapast í verkföllum og vinna á biðlistum sem hefðu myndast og lengst.

„Það er ljóst að þó að við höfum sinnt bráðaþjónustu þá safnaðist upp vandi, og var nærri neyðarástandi sums staðar," sagði Páll. „Það er alveg ljóst að þau félög sem voru í verkfalli sýndu ábyrgð, þau veittu undanþágur og unnu að því með okkur að tryggja öryggi sjúklinga." Slíkir undanþágulistar dygðu þó ekki til að reka heilbrigðisstofnun í marga mánuði.

Páll sagðist hafa fundið að margar tilfinningar blönduðust saman hjá starfsfólki; reiði, depurð og einhvern létti. Hann sagði að deilan væri enn óleyst og að heilbrigðiskerfi yrði aðeins byggt upp með sátt og góðu starfsfólki.

Helgi Seljan sagði að í gegnum tíðina hefðu uppsagnir stundum verið notaðar til að knýja fram kjarabætur og starfsfólk síðan skilað sér til baka. Hann spurði hvort staðan nú væri öðruvísi. „Páll sagði málið flóknara en þetta, margir væru reiðir og fólki væri misboðið. „Hins vegar er það þannig að þegar fólk segir upp, af hvaða hvötum það er, þá er það stórt skref." Hann tiltók að í verkfalli 2012 hefðu margir sagt upp en hópur fólks hefði ekki snúið til baka. „Við höfum áhyggjur af þessu. Við megun engan mann missa og við megum engan tíma missa heldur."